131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:37]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði í svari sínu að hvorki alþjóðasamningar né hafréttarsáttmálinn næðu til þeirra heræfinga sem við fjöllum um. Hvað segir það okkur? Það segir okkur talsvert um það ofurvald sem hernaðarhagsmunirnir hafa að segja þegar núverandi ríkisstjórn okkar er annars vegar. Hún er allt of höll undir þá hagsmuni. Þessa dagana er spurt og ósköp eðlilegt að spurt sé: Eiga kjarnorkuknúin skip að eiga griðland í íslenskri lögsögu? Mitt svar er afdráttarlaust nei. Það er ekki bara vegna þeirra sjónarmiða sem við í Vinstri grænum höfum í friðarmálum og að við teljum að öryggishagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið annars staðar en innan hernaðarbandalagsins NATO. Nei, það er ekki síður vegna umhverfissjónarmiða, því sigling kjarnorkuknúinna skipa um lögsögu okkar býður heim hættu á óbætanlegu umhverfisslysi.

Þess vegna er aðgerðaleysi og andvaraleysi íslenskra stjórnvalda nú svo ámælisvert. Það er mat mitt að kjarnorkuknúin skip séu tilkynningarskyld í íslenskri lögsögu á grundvelli 12. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda sem umhverfisnefnd Alþingis hafði til umfjöllunar á síðasta vetri. Fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, staðfesti þann skilning minn í umræðu á þinginu um frumvarpið á 128. löggjafarþingi þar sem hún taldi ekki nein tvímæli um að geislavirkur úrgangur heyrði til hættulegum efnum og heyrði sem slíkur undir lögin. Dýrmætasta lögsaga okkar ætti að vera friðuð fyrir umferð kjarnorkuknúinna skipa og einnig fyrir flutningi með losun kjarnorkuúrgangs.

Krafan sem Vinstri grænir gera á stjórnvöld er afdráttarlaus. Alþingi Íslendinga á að friða lögsöguna fyrir siglingum kjarnorkuknúinna skipa, að ekki sé talað um skip sem eru hlaðin kjarnavopnum.