131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:42]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir fréttaskýringar af flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á laugardaginn. Sá ágæti maður hefur ekki lesið nógu vel. Þar var margt rætt og m.a. settar fram nýjar hugmyndir um öryggis- og varnarmál Íslands. Mig langar af þessu tilefni að benda hv. þm. á að eins og er eru engar Orion-kafbátaleitarvélar hjá varnarliðinu í Keflavík og það veit enginn hvort þær koma til baka. Eins og er eru þar líklega fjórar orrustuþotur engum vopnum búnar. Svo vil ég spyrja hv. þm.: Hvaða loftvarnir eru það? Það er kannski kominn tími til að fara að tala um málin eins og þau eru.

Vegna þess sem hér var hafið máls á vil ég ítreka það sem áður kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að okkur stafar án nokkurs vafa meiri hætta af kjarnorku- og mengunarslysi einhvers konar í Norðurhöfum en nokkru öðru. Það gæti einfaldlega kippt grundvellinum undan atvinnuvegum þjóðarinnar og lífi okkar hér ef kjarnorkuslys yrði í Norðurhöfum. Í því ljósi er vægast sagt ógnvænlegt að lesa það á fréttavef BBC að beitiskipið Pétur mikli sem var fyrir utan ströndum okkar í nokkrar vikur í haust hafi verið kallað til hafnar fyrr á árinu vegna þess að það væri í ótryggu ástandi. Yfirmaður rússneska flotans sagði í fréttum að það gæti sprungið upp hvenær sem er, það væri svo illa fyrir því komið. Við vitum að rússneski flotinn er að stórum hluta að hruni kominn. Málið þarf að ræða bæði með tilliti til þess hvernig alþjóðlega er hægt að hjálpa Rússum til þess að koma í veg fyrir slys (Forseti hringir.) og hvernig við ætlum að hafa eftirlit með umferðinni í sjónum.