131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:48]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að nota seinni hluta ræðutíma míns flokks til að viðra aðeins þær ályktanir sem við megum draga af þessum atburði. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni er þetta mjög alvarlegur atburður. Ég hygg að hvergi annars staðar í Norður-Atlantshafi hefði nokkur þjóð liðið það að þessi floti lægi svona nálægt ströndum þetta langan tíma. Norðmenn hefðu t.d. aldrei liðið það að þessi tiltekni floti með umræddum skipum og með þessum vopnabúnaði hefði legið rétt fyrir utan strendur Finnmerkur við Norður-Noreg eða annars staðar við Norður-Noreg í svo langan tíma. Slík skip hefðu áreiðanlega verið hrakin á brott með diplómatískum aðferðum, þ.e. með því að beita Rússa þrýstingi.

Hvað þýðir þetta í raun og veru? Er þetta það sem koma skal? Erum við hugsanlega að sjá það núna að Rússar fari að gera sig meira gildandi á norðanverðu Atlantshafi en við höfum séð mörg undanfarin ár? Er þetta kannski fyrsta heimsókn af mörgum sem við munum fá hingað upp að Íslandsströndum, getur það verið? Ef svo er, hvernig ætlum við þá að mæta því?

Ég held að mjög mikilvægt sé að við Íslendingar setjumst niður núna og reynum að hugleiða það hvernig við ætlum að mæta slíkum heimsóknum í framtíðinni. Hvernig ætlum við að bregðast við ef við verðum þess áskynja að kjarnorkuknúin skip, flotadeildir komi upp að ströndum landsins, hugsanlega með einhverja kafbáta í eftirdragi neðan sjávar, liggjandi hér á okkar ríkustu fiskimiðum dögum saman? Við verðum að koma upp einhvers konar viðbragðsáætlun varðandi þetta. Þar tel ég að Landhelgisgæslan hafi að sjálfsögðu eðlilegu hlutverki að gegna. En til þess að hún geti gert það þarf að bæta flugvélakost hennar en það þarf líka að bæta skipakostinn. Það er gríðarlega mikilvægt að þeim skipum, þessum gömlu varðskipum sem við höfum í dag verði hreinlega lagt, og við förum út í það að láta smíða fleiri en eitt nýtt varðskip sem geti tekið á eftirliti með svona flota, geislamengun, annarri mengun og öðru þess háttar. Það er mergurinn málsins.