131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:58]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á einkamálalögum, nr. 91/1991, og þjóðlendulögum, nr. 58/1998. Frumvarp um sama efni var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Við gerð þessa frumvarps hefur verið tekið mið af niðurstöðu meiri hluta allsherjarnefndar frá því í vor og breytingartillögum hennar. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um meðferð einkamála um skilyrði gjafsóknar og miðar það að því að setja skýrari reglur um gjafsókn, þannig að efnalítið fólk geti fengið fjárstuðning úr ríkissjóði til þess að reka mál fyrir dómstólum. Jafnframt verði nýtt sem best það fjármagn sem ætlað er að kosta gjafsóknarmál, en það liggur fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna veitingar gjafsóknar aukast á hverju ári og er ekki séð fyrir endann á því nema á verði tekið.

Gert er ráð fyrir að gjafsóknarheimildir byggist á því grundvallaratriði að efnalítið fólk geti leitað réttar síns fyrir dómstólum. Einnig verður á því byggt að nægjanlegt tilefni sé til málshöfðunar og að eðlilegt megi teljast að málssókn sé kostuð af almannafé. Fellt verði á brott ákvæði um að gjafsókn sé hægt að veita þegar úrlausn máls hefur svokallað almennt gildi en það skilyrði hefur afar víðtæka skírskotun og þykir ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsókn einstaklings af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis. Enn fremur er í frumvarpinu lagt til að settur verði skýrari grundvöllur undir heimild dómsmálaráðherra til að kveða nánar á um veitingu gjafsóknar í reglugerð, þar með talið hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn. Er þannig stefnt að því að unnt verði að veita gjafsóknarnefnd nánari leiðbeiningar á þeim atriðum sem líta beri til við mat á því hvort skilyrði séu fyrir veitingu gjafsóknar og um leið verði þau sjónarmið sem liggja að baki ákvörðunum nefndarinnar gegnsærri. Er að því leyti tekið mið af álitum umboðsmanns Alþingis um starfshætti stjórnvalda við veitingu gjafsóknar. Fyrrnefnd reglugerðarheimild hefur verið vandlega ígrunduð í ráðuneytinu og hef ég í hyggju að kynna allsherjarnefnd málið til hlítar með því að senda henni drög að reglugerð þegar málið kemur þangað til umfjöllunar.

Jafnframt er í frumvarpinu lögð til breyting á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta þannig að í lögin verði tekið ákvæði um gjafsókn sem er sérstaklega sniðið að þörfum og hagsmunum þeirra sem aðild eiga að þjóðlendumálinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.