131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:17]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, Bryndísar Hlöðversdóttur. Þess ber að geta að ég er áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd og sat fundi nefndarinnar þegar fjallað var um þetta mál og lýsti mig samþykka niðurstöðu minni hlutans, þ.e. nefndaráliti því sem birt var á þskj. 1661 á síðasta löggjafarþingi.

Það sem var rakið hér í ræðu síðasta hv. þingmanns og er, að mati okkar sem erum andsnúin þessu frumvarpi, ámælisvert að það skuli eiga að fella niður almenna heimild til gjafsóknar á grundvelli þess að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda.

Það kom fram í umfjöllun allsherjarnefndar um málið að slík mál sem hér um ræðir gætu t.d. verið vegna umhverfismála. Einnig voru nefndar kærur vegna kosninga og kvartanir eða kærur vegna ráðherraúrskurða. Þannig að hér er um að ræða ákveðið bragð stjórnvalda til að koma sér undan kærum vegna ráðherraúrskurða, þar sem almenningur telur sig eiga eitthvað sökótt við ráðherrana og stjórnsýslu þeirra og hefur hingað til heyrt undir gjafsóknarákvæði, en nú á að fækka þessum gjafsóknarmálum fyrst og fremst með því að koma í veg fyrir að mál af þessu tagi verði rekin á grundvelli gjafsókna.

Þetta vekur sannarlega athygli, vegna þess að þetta stríðir auðvitað gegn þeirri þróun sem hefur verið og er í nágrannalöndum okkar mjög sýnileg og markast t.d. í umhverfismálunum af samningi sem nefndur er Árósasamningurinn og stendur fyrir dyrum að fullgilda hér á Íslandi.

Árósasamningurinn gerir ráð fyrir því að tryggja almenningi réttláta málsmeðferð og greiðan aðgang að upplýsingum í umhverfismálum. Ég sé ekki betur og við í allsherjarnefndinni sem fjölluðum um málið á síðasta ári, en að efni þessa frumvarps stangist illilega á við þær skyldur sem stjórnvöld ætla sér að undirgangast og þurfa að undirgangast, samkvæmt þessum samningi, Árósasamningnum. Ég sé ekki betur en það sé útilokað samkvæmt núgildandi reglum að fá heimild til gjafsóknar til þess að sækja mál fyrir alþjóðlegum dómstólum. Á því virðist engin breyting ætla að verða samkvæmt þessu frumvarpi.

Slíka heimild má hins vegar sjá í reglum nágrannaríkja okkar og þess vegna væri eðlilegt að taka upp sambærileg ákvæði hér á landi, en ekki að byrja rétt áður en við gerumst fullgildir aðilar að Árósasamningnum og undirgöngumst það að leiða ákvæði hans í lög hér á landi, að þrengja löggjöf okkar þannig að það verði ekki pláss fyrir gjafsókn á þessu sviði.

Þetta breytir auðvitað gífurlega miklu. Þetta breytir t.d. því að fólk sem ætlar sér að gæta hagsmuna náttúruverndar og umhverfisverndar verður þá sjálft að kosta málsókn sína, því náttúran og umhverfið eiga sér engan talsmann eða málsvara — sérstaklega ekki þegar ríkisstjórnin er eins innréttuð og raun ber vitni — að jafnvel þó um sé að ræða málshöfðun gegn stjórnvöldum sem hafa að mati einstaklinganna brotið rétt á þeim sem eiga að gæta þessara hagsmuna að öðru leyti.

Það er því augljóst, frú forseti, að hér er um mjög mikilvæg mál að ræða. Mér finnst að þessi mál hljóti að geta varðað einstaklinga og almenning mjög miklu. Það er í sjálfu sér ámælisvert að hæstv. dómsmálaráðherra skuli ekki eyða á það orði í ræðu sinni hér áðan að þessi atriði voru öll til umfjöllunar í allsherjarnefnd þegar við fjölluðum um málið á síðasta þingi. Hæstv. ráðherra hefði svo sannarlega getað komið inn á þessi atriði og svarað þeim með einhverjum hætti í ræðu sinni, t.d. því hvað kvartað var undan lélegum rökstuðningi í greinargerð með frumvarpinu.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gat um hér áðan að rökstuðningurinn sem greinargerðin byggir á er afar veikur og það virðist vera að fela eigi hæstv. ráðherra að meta þessa hluti í reglugerðarheimildum án þess að löggjafinn komist með sín sjónarmið að borðinu. Þannig að ég held að svona víð reglugerðarheimild og illa rökstudd eins og gert er ráð fyrir að hér verði lögleidd sé ámælisverð og varasöm og hefði talið að hér hefði þurft að standa mun betur að málum og undirbyggja mun betur þann rökstuðning sem hæstv. ráðherra hefur fyrir þessum breytingum, ef hann hefur þá einhvern rökstuðning.

Það kom líka fram í umfjöllun allsherjarnefndar um málið að ekki væri líklegt að breytingarnar mundu leiða til mikils sparnaðar, þannig að ég sé ekki að þetta mundi skipta sköpum hvað það varðar þó að einhver mál sem gætu kannski verið þrjú, fjögur, fimm á ári, svo skotið sé út í bláinn, mundu fylgja með í þessum gjafsóknarpakka.

Það er alveg ljóst að almenningur er orðinn meðvitaðri um þann rétt sem hann hefur samkvæmt lögum til að leita heimilda til gjafsókna. Við í allsherjarnefnd fengum mjög fína yfirferð frá aðilum í gjafsóknarnefndinni varðandi það hvernig þær heimildir sem eru veittar eru rökstuddar. Ég verð að staðfesta það hér að það virðist vera afar vel og skynsamlega á málum haldið í þeirri nefnd og mjög rökfastur málflutningur nefndarmanna sem komu fyrir nefndina. Ég sé því ekki annað en að hæstv. dómsmálaráðherra verði að skoða ofan í kjölinn á nýjan leik hvað hér er á ferðinni og svara með einhverju móti þeirri gagnrýni, sem er mjög málefnaleg, sem hefur komið fram á þetta mál. Ég held að það verði að gerast í 1. umr.