131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:27]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar umræður. Að vísu hefur lítið nýtt komið fram í þeim miðað við umræður sem fóru fram á síðasta þingi og það er ljóst að þeir sem voru á móti þessu máli þá hafa ekki skipt um skoðun þrátt fyrir umræður um málið og þrátt fyrir að að sjálfsögðu hafi verið færð rök fyrir þessum breytingum. Mér finnst svolítið einkennilegt að tala hér hvað eftir annað um þessi atriði. Sömu þingmennirnir tala um að það vanti rök þótt þeir séu ósammála máli sem er ekki það sama og að rök vanti í málum. Mér finnst það einkennilegur málflutningur, virðulegi forseti, að hlusta á ræður sí og æ um þessi mál og eins það þótt menn séu ósammála málum þá geti þeir ekki fallist á þau rök sem eru flutt fyrir máli. Það er heldur takmarkað umburðarlyndi fyrir skoðun annarra sem menn sýna með því.

Varðandi útgjöldin til gjafsóknarmála þá vil ég bara vísa til þess sem ég svaraði á síðasta þingi. Það voru mjög ítarlegar upplýsingar lagðar fram þá. Það hefur einnig verið spurt um þetta mál núna í upphafi þessa þings. Það er verið að taka upplýsingarnar saman, þannig að ég verð að vísa til þess. Ég er ekki með tölurnar hér á hraðbergi, enda taldi ég það ónauðsynlegt miðað við að þær hafa verið lagðar fram og verið er að vinna úr þeim núna vegna fyrirspurna sem komu fram hér í þinginu og þær munu að sjálfsögðu liggja fyrir.

Ef mönnum finnst fjárhæðin 10–15 millj. lág, er það þá ekki til marks um að þessi mál séu ekki mörg og þess vegna sé ekki ástæða til að fara þannig orðum um þetta eins og háttvirtir þingmenn voru að gera; að það væri verið að vega að einhverjum gífurlegum réttindum og réttlætismálum með því að setja þessar reglur svona skýrar. Það hefur komið í ljós við framkvæmd málanna og framkvæmd þessara reglna að það er nauðsynlegt að setja skýrari reglur um þetta, setja í lagarammann ákveðnari viðmið heldur en eru í núgildandi lögum og það er verið að gera með þessu frumvarpi.

Það hefur að sjálfsögðu verið rætt um þessi mál við gjafsóknarnefnd og haft samstarf við hana í mörgu tilliti þegar litið er á gerð frumvarpsins, auk þess sem nefndin kom að sjálfsögðu fyrir allsherjarnefnd á sl. vetri eins og fram hefur komið. Henni er því fullkunnugt um málið sem er til umræðu.

Þegar hv. þm. gera því skóna að með frumvarpinu og breytingunum sé verið að vega að sérákvæðum, eins og í svonefndum Árósasamningi sem hugsanlegt er að verði lögfestur hér eða hvaða aðferð sem menn viðhafa, að setja einhverjar skorður við því sem menn gangast undir með gerð þess samnings er alrangt. Þegar menn setja sérreglur og sérlög ganga þau framar þeim reglum sem settar eru á þann almenna hátt sem gert er með gjafsóknarreglunum. Það er því ástæðulaust að vera með slíkar lagaskýringar og leggja mál út á þann veg sem gert var, að með almennu reglunum sé verið að takmarka einhverjar sérreglur sem kunna að verða lögfestar og ganga lengra og hafa gildi hvað sem hinum almennu reglum líður.

Varðandi það að rökin í málinu séu óljós eru þau náttúrlega mjög einföld og skýr. Verið er að leggja á ráðin um það með breytingunum að fjárhagur þess sem hefur málsókn ráði. Það er meginreglan sem verið er að árétta með frumvarpinu og verið að draga þá línu skýrar en í gildandi lögum. Það þarf enginn að fara í grafgötur um það. Menn geta verið því sammála eða ósammála, en þurfa ekki að standa og kvarta undan því að það vanti rök fyrir jafneinfaldri reglu og þarna er sett.

Einnig er rétt að hafa í huga að ef menn fara í mál, hvort sem þeir eru auðugir eða nota gjafsóknarréttinn, fá þeir sakarkostnaðinn greiddan sér dæmdan ef þeir vinna málið. Þetta er hin einfalda og skýra regla sem menn þurfa að hafa í huga, sérstaklega lögfræðingar sem hér taka til máls og fjalla um þessi mál. Það má ekki gleyma því að vinni menn mál og séu með gott mál fá þeir sakarkostnaðinn greiddan og þurfa ekki að bera hann.

Vikið hefur verið að reglugerðinni og ég get tekið undir með þingmönnum að heimildin er rík í frumvarpinu til setningar á reglugerð. Við upphaf umræðunnar sagði ég að reglugerðarheimildin hafi verið vandlega ígrunduð í ráðuneytinu og að ég hefði í hyggju að kynna allsherjarnefnd málið til hlítar með því að senda henni drög að reglugerðinni þegar málið væri þar til umfjöllunar. Það er því ekki verið að fara á bak við þingmenn eða allsherjarnefnd varðandi setningu reglugerðarinnar, heldur verður málið kynnt fyrir þingmönnum og allsherjarnefndinni á þann veg að þeir munu fá drögin til skoðunar.

Ég held því að ekki sé hægt að nálgast málið þannig að það hafi verið illa að því staðið eða einhver rök í málinu skorti, sérstaklega ekki þegar litið er til þess að málið var til umræðu á þingi sl. vetur. Álit meiri hluta allsherjarnefndar liggur fyrir. Það hefur verið fjallað um það. Það liggja einnig fyrir umsagnir manna um þetta hjá nefndinni. Síðan geta menn verið sammála eða ósammála eins og gengur og náttúrlega hlutverk okkar líka að vera ósammála ef svo ber undir og menn verða að sætta sig við það, út á það ganga stjórnmálin öðrum þræði.

Sagt var að það skorti rök, m.a. þegar rætt væri um þjóðlendumálin í frumvarpinu. Það segir sérstaklega t.d. í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið að ákvæðið byggist bæði á því að ríkið hafi haft frumkvæði að lagasetningunni um þjóðlendurnar og kröfugerð og að mál vegna ákvarðana óbyggðanefndar séu þegar hafin á einu landsvæði þannig að eðlilegt þyki að sömu reglur gildi um ákvarðanir nefndarinnar á öðrum svæðum.

Ég sé ekki annað en að þetta séu mjög skýr og góð rök fyrir því að taka málið þeim tökum sem gert er í frumvarpinu og hafa ákvæði frumvarpsins með þessum hætti. Ég veit ekki hvaða einfaldari og skýrari rök menn þurfa til þess að átta sig á því að þjóðlendumálið hefur algera sérstöðu þegar litið er til mála af þeim toga þar sem ríkið hefur fallist á að greiða kostnað við málsókn. Þetta styður mig því enn í þeirri skoðun að þær sífelldu fullyrðingar að hér skorti einhver rök eiga ekki við rök að styðjast og eru úr lausu lofti gripnar til þess að villa mönnum sýn þegar málið er til umræðu. Einnig það tal að það sé einhver þróun, eins og það séu einhverjir náttúrukraftar á ferðinni í heiminum sem leiði til þess að ríkið eigi að standa undir kostnaði við málaferli hvers og eins þegar honum dettur í hug að stefna ríkinu eða einhverjum öðrum á einhverjum óljóst skilgreindum forsendum, að það sé náttúruþróun eða einhver heimsþróun sem við séum að fara á mis við með því að taka á málum eins og sagt er í frumvarpinu. Það er álíka mikil rökleysa og að halda því fram að það skorti rök fyrir því að hafa sérstök ákvæði um þjóðlendumálin í frumvarpinu.