131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:52]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki gert að því þótt fólk forherðist í trúnni í umræðum af þessu tagi. Það er ekki vandamál sem ég þarf að glíma við í þessu máli. Ég sannfærist alltaf betur og betur um að nauðsynlegt sé að setja um málið skýrari reglur. Í greinargerð með frumvarpinu eru m.a. settar fram röksemdir fyrir því að setja skýrari reglur, ef hv. þingmenn hafa fyrir því að lesa það. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er þannig ætlunin að gera skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar skýrari og tekur frumvarpið að því leyti mið af álitum umboðsmanns Alþingis.“

Hér kemur fram að þetta er m.a. gert vegna álita umboðsmanns Alþingis til þess að taka af skarið um álitamál sem hann hefur vikið að. (BH: Reglugerðin ...) Maður stendur í þessum ræðustól af og til og er skammaður fyrir að hafa álit umboðsmanns Alþingis að engu. En þegar álit hans er notað sem rök í frumvarpi af þessum toga og sagt frá því í greinargerðinni að það sé tekið mið af álitum umboðsmanns Alþingis þá er það haft að engu, sagt að það hafi ekkert komið fram og ekkert liggi fyrir um að einhverjir aðilar hafi bent á nauðsyn þess að gera ákvæðin skýrari.

Ég skora á hv. þm. að kynna sér þessi álit umboðsmanns Alþingis og þau álitamál sem upp hafa komið við framkvæmd laganna. Ég stóð að því á sínum tíma að setja umrædd ákvæði í lög. Ríkisstjórn sem ég var í og studdi stóð að því að setja þau í lög. Sú röksemdafærsla þingmannsins að ég hafi verið andvígur því að þessi leið yrði farin er náttúrlega eins fráleit og verið getur. Ég er hins vegar maður til þess, þegar ég að hnökrar hafa verið á framkvæmdinni, að gera bragarbót á og reyna að gera hana skýrari þannig að menn velkist ekki í vafa og að fjármunirnir nýtist þeim sem í raun þurfa á því að halda að ríkið styrki þá til málssóknar.