131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Fórnarlamba- og vitnavernd.

13. mál
[17:32]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson beindi til mín þremur spurningum og mér er ljúft og skylt að svara þeim.

Hann spurði í fyrsta lagi hvað mörg svona mál gætu mögulega komið upp á ári eða hvað þessi málaflokkur varðaði marga á ári. Það er auðvitað ekki vitað hversu umfangsmikill þessi málaflokkur gæti orðið á Íslandi eða er í dag. Hins vegar get ég nefnt dæmi um að á Spáni hefur það vakið athygli upp á síðkastið að menn telja sig hafa nokkuð glögga mynd af því núna hvernig umhorfs er í vændisiðnaðinum á Spáni en þar er sagt að um 300 þúsund konur stundi nú vændi, 300 þúsund í heildina á öllum Spáni, og það er talið að níu af hverjum tíu séu útlendingar eða af erlendu bergi brotnar og langflestar eða mjög margar ólöglegir innflytjendur í landinu.

Þetta er því gífurlega stórt mál og tölur frá Grikklandi eru jafnvel enn svakalegri en frá Spáni og líka frá Ítalíu. Ég hef enga ástæðu til að halda annað en að þessi angi sé kominn hingað til Íslands eða teygi sig hingað þar sem hann er orðinn þetta útbreiddur um álfuna.

Varðandi 3. gr. og umþóttunartímann þá er það rétt sem hv. þm. sagði að þetta er tími sem fórnarlömbin eiga að hafa til umþóttunar um hvort þau þiggi verndina eftir að nefndin hefur úrskurðað að þau fái hana. Þetta er eingöngu hugsað vegna þess að það er svo erfitt fyrir fórnarlömbin að taka þessa ákvörðun, hvort þau treysta sér til að fara í gegnum það prógramm sem verið er að bjóða. Nánari ákvæði um þetta yrði sett í reglugerð og sömuleiðis yrði það reglugerðarmál sem kæmi til með að taka á þeirri (Forseti hringir.) mögulegu misnotkun sem hv. þm. gerði að umtalsefni í þriðju og síðustu spurningu sinni.