131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[17:39]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu sem við flytjum öll, háttvirtir þingmenn Samfylkingarinnar.

Í þessari tillögu er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að undirbúa lagabreytingar sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að setja á stofn eitt atvinnuvegaráðuneyti. Samhliða verði þau atvinnumálaráðuneyti sem nú starfa, þ.e. iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti, lögð niður.

Við teljum að þetta sé mikilvægt til þess að gera stjórnsýsluna skilvirkari og til að hagræða og koma stjórnsýslunni nær nútímanum. Við teljum ekki síst nauðsynlegt að stíga þetta skref til þess að skapa ráðuneyti sem fari með stjórnsýslu og stefnumörkun málefna allra atvinnugreina sem er að finna hér á landi, ekki bara þeirra sem falla undir þessi þrjú ráðuneyti sem ég hef lagt til að verði lögð niður heldur líka atvinnugreinar sem hafa orðið til á síðustu árum, jafnvel áratugum, en hafa í reynd hvergi átt höfði sínu að halla.

Ég nefni ferðaþjónustu, sem á sínum tíma var sérstaklega holað niður í samgönguráðuneytinu af engum sérstökum rökum. Ég þekki það mál vel vegna þess að ég sat í ríkisstjórn þegar menn tóku þá ákvörðun. Það má líka nefna þekkingariðnað og upplýsingatækni og aðrar skyldar greinar.

Ég vil taka það fram, frú forseti, að þó að hér sé lagt til að stokka upp ráðuneyti og stofnanir sem beinlínis tengjast atvinnuvegum með formlegum hætti innan verkaskiptingar eins og hún er skilgreind í reglugerð um Stjórnarráð þá er hér í reynd um að ræða, að okkar tillögu, fyrsta skrefið að allsherjaruppstokkun Stjórnarráðsins. Það væri hægt að hafa langt mál til að skýra út hugmyndir sem hafa orðið til í vinnu Samfylkingarinnar, nú um tveggja ára skeið, varðandi þessa uppstokkun á Stjórnarráðinu. Ég tel hins vegar að það skref sem við stígum hér með þessari þingsályktunartillögu sé eðlilegt fyrsta skref. Það er líka ákaflega heppilegt vegna þess að þarna er um að ræða mjög afmarkaðan þátt af Stjórnarráðinu í dag. Þarna er um að ræða að leggja niður þrjú ráðuneyti sem tilheyra í reynd skiptingu sem er ekki lengur við lýði.

Stjórnarráðið hefur ekki breyst að neinu marki síðan1969. Þá tel ég frá stofnun umhverfisráðuneytisins 1989, 20 árum eftir síðustu meiri háttar uppstokkun á Stjórnarráðinu. Á þessum tíma hafa átt sér stað gríðarlegar breytingar í atvinnulífinu. Á sínum tíma var Stjórnarráðið, kannski eðlilega, ákveðin endurspeglun á atvinnulífinu eins og það greindist þá. Á þeim tíma greindist atvinnulífið í þrennt, í sjávarútveg, landbúnað og iðnað, og fjármálalífið endurspeglaði þá skiptingu. Það varð til Búnaðarbanki, Iðnaðarbanki og Fiskveiðasjóður. Það má segja að sjóðakerfið sem hið opinbera stóð fyrir og bankarnir, sem þá voru ríkisbankar, hafi algjörlega í einu og öllu endurspeglað þessa hefðbundnu skiptingu í atvinnulífinu. Og kannski ekki óeðlilegt að Stjórnarráðið hafi á þeim tíma líka endurspeglað hana sem það gerði svo sannarlega með því að atvinnugreinarnar féllu undir þessi þrjú ráðuneyti, iðnaðarráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið. Á þessum tíma, eins og 1969, má kalla að það hafi ekki verið neinar aðrar atvinnugreinar sem ekki féllu beinlínis undir þessa hefðbundnu skiptingu atvinnulífsins.

Síðan hefur margt gerst. Það hafa orðið tæknibyltingar sem hafa leitt til fæðingar nýrra atvinnugreina sem ekki er hægt að skilgreina með rökrænum hætti í einhverja af þessum þremur upprunalegu kvíslum atvinnulífsins. Og það hefur orðið algjör breyting á fjármálalífi samfélagsins, viðskiptalífið og fjármálalífið hefur verið miklu sneggra til þess að laga sig að breytingum á atvinnulífinu sem hafa sprottið af nýjum og stundum gjörbreyttum framleiðsluháttum.

Það má eiginlega segja, frú forseti, að þeim breytingum sem hófust í fjármálalífi þjóðarinnar fyrir hartnær 20 árum hafi lokið í febrúar á þessu ári þegar Búnaðarbankinn hætti að vera til undir því nafni. Þá má segja að fjármálalífið hafi endanlega hætt að endurspegla skiptingu atvinnulífsins í þessar þrjár hefðbundnu greinar.

Hins vegar er athyglisvert að umræddar breytingar og þessar byltingar hafi algerlega liðið fram hjá húsum Stjórnarráðsins. Stjórnarráðið hefur með engu móti dregið dám af þeim breytingum og það hefur staðið niðurnjörvað lítt breytt árum saman. Þráinn innan kerfisins gegn breytingum og stöðnunin, íhaldssemin hefur verið slík að endurteknar ríkisstjórnir hafa ekki náð fram þeim vilja sínum að breyta verkaskiptingu Stjórnarráðsins og ná almennilegri uppstokkun sem endurspeglaði betur atvinnulífið í dag. Þetta birtist í því að núverandi ríkisstjórn hefur haft t.d. í stefnuyfirlýsingu sinni frá því að hún varð til 1995 að ráðast í uppstokkun Stjórnarráðsins. Það hefur ekki tekist.

Fyrrverandi forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson, var spurður að því af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur undir lok síðasta kjörtímabils hvað liði framkvæmd þessa fyrirheits. Hæstv. utanríkisráðherra var nógu ærlegur til að svara því að það væri mjög ólíklegt að nokkrar breytingar yrðu gerðar á því kjörtímabili og hann bætti því við að málið væri það flókið og viðamikið og erfitt að í slíkar breytingar ættu menn einungis að ráðast í upphafi kjörtímabils og ég er alveg sammála því. Það er ekki síst þess vegna sem þessi tillaga er flutt hér í fyrsta skipti.

Skammt er liðið frá upphafi kjörtímabils og ef flokkarnir á þinginu bæru gæfu til að ná höndum saman um þetta mikla verkefni held ég að það mundi skipta máli og flýta fyrir því að hægt væri að ráðast í þetta.

Markmið okkar sem leggjum fram tillöguna er margþætt. Í fyrsta lagi teljum við mjög mikilvægt að laga Stjórnarráðið og ekki bara ráðuneytin heldur líka stofnanir þeirra að þeim gríðarlega miklu breytingum sem ég hef verið að lýsa og hafa orðið í atvinnuháttum. Þessar breytingar speglast að nánast engu leyti í uppbyggingu Stjórnarráðsins. Í annan stað teljum við að ráðuneytum hafi fjölgað úr hófi fram og löngu sé orðið tímabært að fækka þeim og gera starfsemi þeirra skilvirkari með því að sameina verkefni. Í þriðja lagi, og það skiptir ekki minnstu máli, eru stofnanir hinnar íslensku stjórnsýslu allt of margar miðað við þau verkefni sem þær hafa fengið í fang sitt af samfélaginu, þær eru of smáar og eru þess vegna ekki nægilega öflugar í mörgum tilvikum til þess að takast á hendur þau öflugu og flóknu verkefni sem nútímalegt og margþætt tæknisamfélag býr til.

Í fjórða lagi, og það er ekki í sísta lagi, er tímabært að gera uppstokkun á Stjórnarráðinu, stofnunum og ráðuneytum til að gera rekstur hins opinbera skilvirkari, hagræða með sameiningu og draga þannig úr kostnaði skattborgaranna.

Ég nefndi það áðan, frú forseti, að frá þeim tíma er menn breyttu verkum innan Stjórnarráðsins síðast hafa sprottið fram nýjar atvinnugreinar og á sama tíma hafa þær hefðbundnu atvinnugreinar sem fyrir eru dvínað að styrk og þær skipta minna máli. En það er eins og við sem förum hér með lagasetningu, ekki síst fjárlagasetningu, höfum ekki tekið mið af þessu.

Ég skal taka tvö dæmi, frú forseti. Upplýsingatæknin sem er nýlega orðin til leggur til landsframleiðslunnar 5,5% en segja má að hún hafi til skamms tíma velkst eins og sprek í Stjórnarráðinu. Það er ekkert sérstakt ráðuneyti sem í raun og sann tekur sig af upplýsingatækni og við sjáum t.d. þegar við skoðum fjárlögin að framlög til upplýsingatækni er að finna ákaflega víða. Þau eru ekki markviss og þau eru ekki hnitmiðuð.

Andspænis þessu höfum við gamla hefðbundna og vissulega mikilvæga atvinnugrein eins og landbúnað sem hefur í kringum sig heilt ráðuneyti, viðamikið stoðkerfi margra dýrra stofnana, þar á meðal heilan háskóla, en hún leggur einungis til 1% af landsframleiðslunni.

Í dag er það orðin viðtekin skoðun að hið opinbera eigi ekki að gera neinn greinarmun á mismunandi atvinnugreinum. Ríkisvaldið á að skapa öllum atvinnugreinum sömu skilyrði til að vaxa. Þetta er vinnuaðferðin í atvinnulífinu sjálfu og við sem flytjum þessa þingsályktun teljum að öllum þessum greinum, gömlum og nýjum væri best komið saman í einu öflugu atvinnuvegaráðuneyti. Þar yrði stjórnsýslan og stefnumörkun fyrir atvinnulífið í heild færð til nútímans. Stefnan yrði skýrari og áhrif sérhagsmuna yrðu miklu minni. Ég er sannfærður um að gríðarmikill sparnaður mundi felast í að sameina þrjú ráðuneyti í eitt og sömuleiðis að ráðast samhliða í það að styrkja stofnanir með því að sameina þær og fækka. Ég tel að einungis sparnaður vegna stjórnunarkostnaðar gæti numið háum fjárhæðum. Ég er þeirrar skoðunar að með því að fækka ráðuneytum og sameina verkefni mætti spara milljarða kr. á hverju ári og mér finnst það merkilegt að ríkisstjórnin sem stöðugt er með aðhald á vörunum skuli ekki hafa ráðist í vinnu til að meta þetta.

Fyrsta skrefið þegar menn ráðast í hluti af þessu tagi er að skilgreina hvaða verkefnum væri hægt að steypa saman, hvaða nefndir má leggja niður og hvaða stofnanir er hægt að sameina. Ég tel einnig að það ætti að vera meginregla þegar menn ráðast í uppstokkun af þessu tagi og eru sérstaklega að huga að auðlindaráðuneytunum og auðlindum, að innan sama ráðuneytis á ekki að meta og fylgjast með framvindu auðlinda annars vegar og taka ákvarðanir um nýtingu þeirra hins vegar. Þetta er hagsmunaárekstur sem með nútímastjórnsýslu á að skilja að. Þetta mundi t.d. þýða svo ég taki dæmi, frú forseti, að ef þetta yrði samþykkt og við mundum búa til eitt öflugt atvinnuráðuneyti mundi innan þess vera tekin ákvörðun um nýtingu auðlindanna í hafinu en það yrði hins vegar gert á grundvelli upplýsinga sem unnar væru og framleiddar í öðru ráðuneyti. Ég tel því að yrði þetta samþykkt mundi það fela í sér að hinn líffræðilegi partur af Hafrannsóknastofnun yrði t.d. fluttur úr hinu nýja atvinnuvegaráðuneyti yfir í umhverfisráðuneyti og þar tel ég reyndar að allar þær stofnanir sem fylgjast með ástandi auðlinda, lifandi auðlinda, auðlinda af jarðefnatoga eða annarra auðlinda ættu að vera og ég gæti í sjálfu sér sett fram ákveðnar hugmyndir hvernig það ætti að vera en ég held að þetta skipti máli.

Ég get þess svona í framhjáhlaupi, frú forseti, að t.d. sú breyting við að flytja Hafró frá því ráðuneyti sem tekur ákvörðun um nýtingu auðlindanna í hafinu yfir til umhverfisráðuneytisins mundi í reynd fella fjötra af stofnuninni. Mér finnst sú stofnun vera dæmi um stofnun sem er reyrð í viðjar vanahugsunar og þar sem er mjög erfitt að ná fram nýrri hugsun eins og við erum þó að sjá í þessum vísindum. Enda sjáum við hversu niðurstöður og þekkingarframleiðsla stofnunarinnar virðist vera úr takti við það ástand sem við erum með öðrum hætti að upplifa í hafinu.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa frekari orð um tillöguna en ég tel að með samþykkt hennar væri stigið ákaflega mikilvægt skref að nútímavæðingu Stjórnarráðsins. Ég er þeirrar skoðunar og við sem flytjum þetta mál að yrði hún samþykkt ætti næsta skrefið að vera að fara skipulega í að endurmeta stöðu annarra ráðuneyta líka því að ég tel að það ætti að vera hægt ef menn fara hugvitssamlega og án fordóma í þá vinnu að fækka ráðuneytunum niður í sjö til átta.