131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[18:03]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um stofnun atvinnuvegaráðuneyta, hv. þm. Össur Skarphéðinsson er 1. flutningsmaður tillögunnar og meðflutningsmenn eru aðrir hv. þm. Samfylkingarinnar.

Eins og kom fram hjá 1. flutningsmanni felst í þingsályktunartillögunni að ríkisstjórninni yrði falið að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar í því skyni að setja á stofn nýtt öflugt atvinnuvegaráðuneyti í stað landbúnaðar-, sjávarútvegs-, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta.

Þingsályktunartillagan er allrar athygli verð og verðskuldar að hún sé rædd. Rökstuðningur sem fram kom í ræðu 1. flutningsmanns stenst ágætlega og er hægt að taka undir markmið með tillögunni eins og hún kemur fram varðandi uppstokkun á Stjórnarráðinu. Það er kominn tími til að endurskipuleggja og endurskoða skipulag Stjórnarráðsins og ekki síst verkaskiptingu þess.

Þetta mál hefur verið til umræðu um nokkurt skeið og þess sjást m.a. merki í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 1999 og í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins. Á landsfundi flokksins árið 2003, á síðasta ári, var t.d. samþykkt tillaga um þetta efni, þ.e. að sameina fagráðuneyti atvinnuveganna í eitt ráðuneyti atvinnumála. Ég fagna því að þingmenn Samfylkingarinnar eru sammála ríkisstjórnarflokkunum og sérstaklega Sjálfstæðisflokknum um þessar áherslur og því hlýt ég að styðja þingsályktunartillöguna.

Eins og ég sagði áðan kom þetta m.a. fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar árið 1999. Þá kom ákvæði um að endurskoða ætti lög um Stjórnarráð Íslands, um skipan ráðuneyta og verkefni þeirra. Það sem m.a. kom fram í stjórnarsáttmálanum var að hliðsjón yrði höfð af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Hluti af þessum breytingum var m.a. að byggðamál færðust undir iðnaðarráðuneytið og Seðlabankinn undir forsætisráðuneytið. Þannig má sjá að ákveðnar breytingar hafa verið gerðar í Stjórnarráðinu frá 1969 þó að ég nefni aðeins tvær. Þær hafa verið frekar smáar í sniðum en eins og kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og jafnframt í greinargerð með þingsályktunartillögunni var stærsta breytingin stofnun umhverfisráðuneytisins fyrir tveimur áratugum eða svo.

Heildarendurskoðun hefur hins vegar ekki gengið eftir. Á síðustu missirum hafa komið fram góðar skýrslur um mat á Stjórnarráðinu og hvernig það virkar. Ég nefni t.d. tvær skýrslur, „Starfsskilyrði stjórnvalda og eftirlit með starfsemi þeirra“ og skýrslu um ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna ríkisstofnana, en í niðurstöðum þeirra komu fram sjónarmið sem tengja stöðu stjórnsýslunefnda, sjálfstæðra stjórnvalda og þá útvíkkun á stjórnarráðslögum að þau tækju til stjórnkerfisins í heild þar sem lögleiða mætti ákveðna meginreglu um heildarskipulag þess. Frá því segir m.a. í bók um Stjórnarráð Íslands frá 1970–2004 sem kom út fyrr á þessu ári. Það er mjög gott yfirlit yfir sögu Stjórnarráðsins og þær breytingar sem hafa átt sér stað á þessu árabili, frá 1970 þegar heildarlög um Stjórnarráðið gengu í gildi.

Eins og ég sagði áðan hefur innan raða Sjálfstæðisflokksins verið rætt töluvert um stofnun ráðuneytis atvinnumála. Það kom m.a. fram í landsfundarályktun frá 2003. Jafnframt hafa komið fram margar aðrar tillögur varðandi Stjórnarráðið, bæði í landsfundarályktunum og á fundum innan flokksins. Ég man t.d. eftir tillögu um að jafnréttismál yrðu færð til forsætisráðuneytisins í þeim tilgangi að sá málaflokkur fengi aukið vægi og þá yrði í meira mæli tryggt að jafnréttismál yrðu samþætt öllum geirum samfélagsins. Þá hafa komið tillögur um að sveitarstjórnar-, skipulags- og byggingarmál yrðu sameinuð undir eitt ráðuneyti. Komið hefur fram tillaga um að ferðaþjónustan verði meginsvið ráðuneytis eftir endurskoðun á verkefnum Stjórnarráðsins og endurskoðun á verkaskiptingu. Við höfum líka rætt um að aðskilja heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið í tvö ráðuneyti enda er það gríðarlega stórt ráðuneyti, bæði að verkefnaumfangi og fjármálaumfangi. Við höfum rætt um að sameina ákveðna þætti í starfsemi félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis og ég hef m.a. í þessum ræðustól og í blaðagreinum bent á að málefni langveikra barna eru skipt milli heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis og hið sama á við um geðsjúka og geðfatlaða sem eru í raun sami hópurinn. Það fer bara eftir því hvort málefni hans eru félagslegs eða heilbrigðis eðlis hjá hvaða stofnunum ráðuneyta þau falla. Hvort tveggja fellur undir annars vegar félagsmálaráðuneytið og hins vegar heilbrigðisráðuneytið.

Það er alveg ljóst að við höfum á undanförnum missirum rætt um þessi tvö málefni, langveik börn annars vegar og geðsjúka og geðfatlaða hins vegar, og komist að raun um að ástæðan fyrir því að mörg þeirra mála sem þau varða falla á milli stafs og hurðar er einmitt vegna þess að þau falla undir tvö ráðuneyti. Það er því full ástæða til að skoða verkefni ráðuneyta með hliðsjón af því sem við getum þá kallað verkferla.

Ég nefndi áðan að ný bók hefði verið gefin út um sögu Stjórnarráðsins á þessu ári. Það er gagnmerkt rit og vel þess virði að líta á en þar kemur m.a. fram að atvinnumálaráðuneytið sem hér er lagt til að verði myndað var reyndar til fram til ársins 1969. Þá féllu sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið undir atvinnuvegaráðuneyti þannig að hugmyndir í þessa veru voru uppi á sínum tíma. Þetta var gert svona en síðan var tekin ákvörðun um að skipta því upp í fleiri ráðuneyti. Nú erum við komin til baka með hugmyndir um að sameina þau aftur í eitt ráðuneyti.

Reyndar er svolítið skemmtilegt að segja frá því að það var reyndar Hannibal Valdimarsson sem vildi árið 1969 fara aðrar leiðir en niðurstaða varð um, þ.e. að skipta ráðuneytum upp. Hann vildi hafa eitt stórt atvinnumálaráðuneyti yfir landbúnað, sjávarútveg, iðnað og viðskipti þannig að þar fara saman sjónarmið fyrrverandi foringja Alþýðuflokksins og foringja Samfylkingarinnar í dag.

Ég vil að lokum ítreka það að ég styð þessa þingsályktunartillögu. Ég tel fulla ástæðu til að fara í heildarendurskoðun á Stjórnarráðinu, lögum um það og endurskipulagningu á verkefnum og verkaskiptingu en í rauninni má telja að þessi þingsályktunartillaga gangi — ef eitthvað er — of skammt. Það má taka mun stærri skref en hér er lagt til og í rauninni þarf ekki að taka atrennuna í smáum skrefum.