131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[18:44]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega ósammála því að landbúnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið eigi heima vel saman. Það er reynsla af því. Við höfum séð sama ráðherra fara með þau mál, ráðherra Framsóknarflokksins, og það var bara alveg skelfileg reynsla þrátt fyrir góðan vilja þess ágæta manns sem gegndi stöðunni.

Staðreyndin er einfaldlega sú að þar er um að ræða hagsmuni sem eru í eðli sínu ólíkir og það verður árekstur millum þessara hagsmuna ef þeir eru vistaðir saman. Þess vegna held ég að það sé miklu betra að fara þá leið að skilja að ákvörðun um nýtingu auðlinda, hafa það í einu ráðuneyti, og hins vegar mat, eftirlit og vöktun auðlindanna sem framleiða þekkinguna og stöðu hennar. Í krafti þeirra upplýsinga á annað ráðuneyti að taka ákvörðun um nýtingu. Þannig held ég að við getum útilokað ákveðna hagsmunaárekstra sem eru í kerfinu. Ég sé t.d. þá hagsmunaárekstra koma fram innan sjávarútvegsráðuneytisins og er þess vegna þeirrar skoðunar að sá hluti af hinni miklu stofnun Hafrannsóknastofnun sem á að fylgjast með þróun stofna í hafinu eigi ekki að vera þar, einungis sá hluti þar sem unnið er að niðurstöðu um tillögur að nýtingu.

Að öðru leyti, herra forseti, tel ég að við hv. þm. Jón Bjarnason séum að mörgu leyti sammála um þetta eins og svo margt annað. Ég er viss um að ef hann skoðar þetta mál vel sér hann að það er mjög til framdráttar íslenskri alþýðu vegna þess að þarna er verið að reyna að skjóta frekari stoðum undir velmegun hennar og skilvirka meðferð fjármuna sem hún innir af höndum og setur í hendur hæstv. fjármálaráðherra. Ég veit að það er það sem hv. þm. vill og hún sameinar okkur, velferð íslenskrar alþýðu.