131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Veðurþjónusta.

183. mál
[13:38]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um veðurþjónustu.

Frumvarp þetta er samið af nefnd sem þáverandi umhverfisráðherra skipaði 3. október 2003 til að semja frumvarp um veðurþjónustu þar sem skilgreint væri hver þáttur hins opinbera skyldi vera í almennri veðurþjónustu og veðurtengdri öryggisþjónustu, sbr. 1. gr. laga um Veðurstofu Íslands, nr. 30/1985. Jafnframt var það verkefni nefndarinnar að gera tillögur um það hvernig opinberri veðurþjónustu væri best komið fyrir.

Í nefndinni áttu sæti auk fulltrúa ráðuneytisins og Veðurstofu Íslands fulltrúi samgönguráðuneytis og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins.

Frumvarpið var áður flutt á 130. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.

Á undanförnum árum hefur opinber veðurþjónusta, einkum sú þjónusta sem Veðurstofa Íslands sinnir verið til athugunar frá ýmsum hliðum. Samkeppnisráð skilaði í lok 2002 niðurstöðu um starfsemi Veðurstofu Íslands á samkeppnismarkaði. Sérstakur starfshópur skipaður fulltrúum frá umhverfisráðuneyti og samgönguráðuneyti fjallaði á árinu 2002 um veðurþjónustu opinberra stofnana.

Í júní árið 2003 lauk stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Veðurstofu Íslands en hún fór fram að frumkvæði Veðurstofunnar og ráðuneytisins. Gerð er grein fyrir niðurstöðum framangreindra athugana í athugasemdum með frumvarpinu og viðbrögðum við þeim.

Á alþjóðavettvangi hefur á síðustu áratugum verið unnið að því að gera veðurþjónustu á breiðum grundvelli skilvirkari og ódýrari. Hlutverk ríkisins sem þjónustuaðila hefur verið til umfjöllunar síðustu árin hjá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni. Þrettánda allsherjarþing stofnunarinnar 1999 samþykkti stefnumarkandi yfirlýsingu, svokallaða „Genfaryfirlýsingu“, um veðurþjónustu og hlutverk og rekstur þjóðarveðurstofa. Á þeim grundvelli samþykkti framkvæmdaráð Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar árið 2003 yfirlýsinguna, „Hlutverk og rekstur ríkisveðurstofa“. Í Genfaryfirlýsingunni segir m.a. að veður og veðurfar hafi áhrif á daglegt líf flestra jarðarbúa og að meira en aldarlöng reynsla hafi sýnt fram á mikla þjóðhagslega hagkvæmni skilvirkrar veðurþjónustu fyrir þjóðir sem reka hana og viðhalda henni. Fáar atvinnugreinar eða einstök fyrirtæki eru algjörlega óháð veðri og kostnaður vegna röskunar starfsemi af völdum veðurs verður seint ofmetinn. Mikilvægasta hlutverk veðurstofa er talinn þáttur þeirra í öryggisþjónustu varðandi líf og eignir og sá þáttur sem þær eiga í að draga úr áhrifum náttúruhamfara.

Mun ég nú víkja að efni frumvarpsins en opinber veðurþjónusta er skilgreind í frumvarpinu sem grunnþjónusta og rekstur grunnkerfa henni tengdri.

Grunnþjónusta er miðlun rauntímagagna, vinnsla á almennum veðurspám og spám um almennar veðurhorfur, öryggisþjónusta og önnur veðurþjónusta sem Íslandi ber skylda til að veita samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum þar um. Starfsemi sérþjónustu Veðurstofu Íslands skal rekin sem sjálfstæð eining og vera fjárhagslega aðskilin frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Enn fremur er í frumvarpinu það nýmæli að kveðið er á um að aðgangur að þeim gögnum sem Veðurstofan framleiðir eða aflar við rekstur grunnkerfa á grunnþjónustu verði afhent þeim sem þess óskar gegn greiðslu einungis þess kostnaðar sem hlýst af afhendingu þeirra.

Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á lögum um Veðurstofu Íslands, nr. 30/1985, aðallega í þá veru að fella niður nokkra liði þar sem fjallað er sérstaklega um veðurþjónustu. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að framangreind lög gildi áfram.

Frú forseti. Ég tel að verði frumvarp þetta að lögum verði verkefni hins opinbera á sviði veðurþjónustu mun betur skilgreint en verið hefur og muni gera grundvöll fjárveitinga til þessa málaflokks skýrari.

Ég hef rakið efni frumvarpsins í megindráttum og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhverfisnefnd.