131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Veðurþjónusta.

183. mál
[13:50]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki neinu við að bæta ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um þau almennu sjónarmið sem varða þetta mál sem hér er verið að ræða um, um veðurþjónustuna.

Ég vildi bara nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra um ákveðin tilvik, ákveðin atriði í veðurþjónustunni, þ.e. veðurþjónustuna á Hveravöllum. Henni var lokað í sumar þrátt fyrir mikil andmæli flestra sem tengdust þjónustu hennar. Hún var gerð sjálfvirk með þeim hætti að sú skráning sem þar fer fram er einungis á þeim atriðum sem hægt er að skrá sjálfvirkt, þ.e. á hitastigi og vindhraða og þess háttar. Hins vegar var skráning á hinu raunverulega veðri, skýjahæð, úrkomu, skyggni og öðru því um líku sem einungis er hægt að mæla og taka og gera grein fyrir með því að vera á staðnum, felld niður.

Mjög ákveðnar athugasemdir komu t.d. frá öllum þeim útivistarklúbbum og -hópum sem ferðast um hálendið. Það komu mjög alvarlegar athugasemdir frá flugmönnum sem eru háðir því að fljúga sjónflug yfir hálendið og höfðu notað einmitt veðurathugunina á Hveravöllum sem stuðning, til þess að fá upplýsingar um skýjafar.

Þar fyrir utan má minna á þau öryggissjónarmið sem hafa þar verið þessu fylgjandi bæði hvað varðar veður og viðveru á þessum stað sem er fjölfarinn árið um kring. Veðurþjónustan var hluti af öryggismálum sem þarna voru uppi.

Ég mótmælti því á Alþingi í fyrra að þetta skyldi verða gert. Engu að síður var þetta samt látið yfir landsmenn ganga. Svo hef ég heyrt að ýmsir aðilar hafi áhuga á því að hjálpa ríkinu við að koma upp aftur þessari þjónustu — þetta munaði ríkið kannski nokkrar milljónir króna, tvær, þrjár, fjórar eða eitthvað svoleiðis — eða bjóða ríkinu samstarf um að koma á veðurþjónustu á Hveravöllum ásamt annarri öryggisþjónustu sem þar þyrfti að vera. Ég held að borist hafi erindi til hæstv. ráðherra um þetta þar sem ríkinu er boðið samstarf um að halda uppi öryggismálum og veðurþjónustu og öðru slíku á Hveravöllum. Ég vil því inna ráðherrann eftir því hvort svo sé.

Ég vil líka koma þeirri athugasemd hér á framfæri að við það að gera veðurathugunarstöðvar sjálfvirkar þá mæla þær ekki hið raunverulega veður. Sumar athugunarstöðvar liggja t.d. meðfram þjóðvegum landsins og kannski sérstaklega þar er mjög mikilvægt að fá upplýsingar um hvers konar veður er, þ.e. hver sé skýjahæðin, hvert skyggnið sé o.s.frv. Sjálfvirkar veðurathugunarstöðvar mæla það ekki. Mér þætti t.d. ágætt að vita hvernig veðrið er á Blönduósi en það er erfitt því að þar er nú komin sjálfvirk stöð og maður veit ekkert um skýjahæð eða hvernig skyggnið er, hvort þar sé t.d. skafrenningur, bylur eða þá hvernig úrkoman hagar sér. Ef maður er að keyra þessar löngu vegalengdir er mjög mikilvægt að veðurupplýsingar séu glöggar og gefi þau skilaboð sem óskað er eftir. Ég vildi líka koma þessu á framfæri, þ.e. að hafa öryggissjónarmiðin í huga, hið raunverulega veður, þegar verið er að skipuleggja þessa mikilvægu þjónustu.

Frú forseti. Ég vék sérstaklega að Hveravöllum og hef mikinn áhuga á að þar sé haldið uppi góðri þjónustu.