131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Náttúruvernd.

184. mál
[14:08]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. umhverfisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á náttúruverndarlögum er varða eldri námur. Óhætt er að segja að þar sé tímabær breyting á ferðinni. Náttúruverndarsamtökin og Landvernd hafa lengi kallað eftir skarpari reglum og lagasetningu um þau mál. Þá má nefna að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gert málið að umræðuefni, bæði á þingi sem í fjölmiðlum og þá sérstaklega rætt um sárið í Ingólfsfjalli.

Eins og hv. þingmenn vita eru eldri malarnámur víða eins og sár í landslaginu. Því miður er víða illa um þær gengið og illa gengið frá þeim sem ekki eru lengur í notkun.

Mig langar að nota tækifærið og inna hæstv. ráðherra eftir nokkrum atriðum í frumvarpinu. Ég vona að hún geti svarað þeim við þessa umræðu. Það fyrsta sem ég staldra við er að í 1. gr. er lagt til að eftir 1. júlí 2007 verði efnistaka óheimil nema að fengnu framkvæmdaleyfi sveitarstjórna, samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga o.s.frv. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, frú forseti, hvers vegna miðað er við þessa dagsetningu, eftir tæp 3 ár. Síðari áfangi á að ganga í gildi 2010 ef ég hef lesið frumvarpið rétt. Mér finnst þetta helst til langur tími og vildi gjarnan vita hvaða rök búa að baki hjá ráðherra og ráðuneyti.

Þá segir í greinargerð, frú forseti, að með þessari lagabreytingu, verði hún samþykkt, verði komið böndum á stóran hluta af þeim námum sem í landinu eru. Mig fýsir að vita hve stóran hluta er um að ræða, hve margar námur við erum að tala um? Veit það einhver? Er til úttekt á landsvísu um hve margar námur eru á Íslandi, bæði þær sem hætt er að nota og hinar sem enn eru í notkun?

Samkvæmt skrá Vegagerðarinnar sem einnig er nefnd í greinargerðinni, eru nú skráðar 3.040 námur á Íslandi. Þar af er rúmur helmingur, 55% af þeim eða 1.658 námur, skráðar ófrágengnar. Einnig segir að talið sé að helmingur þeirra, þ.e. hinna ófrágengnu, sé enn í notkun. Þetta er, frú forseti, gífurlegur fjöldi náma. Ég verð að segja að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að vitað væri um yfir 3 þús. námur í landinu. Þetta hangir saman við fyrri spurningu mína: Yfir hve stóran hluta þessara náma mun þessi lagabreyting taka yfir, ef samþykkt verður? Einnig væri gott að vita hvort einhver veit nákvæmlega hve margar námurnar eru, hvort Vegagerðin hafi í raun gert tæmandi skrá yfir þær.

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Starfshópurinn telur því að ekki eigi að vera miklum vandkvæðum bundið að binda hinar eldri námur leyfum á sama hátt og þær nýju. Jafnframt telur hann nauðsynlegt að í framkvæmdaleyfi skuli gerð grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði.“

Annars staðar í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Umfangsmesta efnistakan er sjálfkrafa matsskyld.“ — Við vitum að það er samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. — „Starfshópurinn telur nauðsynlegt að fram geti farið mat á umhverfisáhrifum allrar efnistöku sem áætluð er í framtíðinni. Fari efnistaka fram á svæði sem þegar hefur verið raskað kann það að leiða til þess að umhverfisáhrif hennar verði talin minni en ella. Það kemur þó ekki sjálfkrafa í veg fyrir að umhverfismat geti farið fram.“

Ef ég hef skilið það rétt sem segir í greinargerðinni er starfshópur ráðuneytisins að leggja til að í framtíðinni verði allur námugröftur, allar malarnámur, settar undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Núna eru þær allar tilkynningarskyldar en fara ekki sjálfkrafa í mat. Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort þetta sé fyrirætlan hennar, að koma því þannig fyrir. Ef svo væri mundi ég fagna því af því að ég held að það sé eina ráðið til að ná böndum yfir þessa starfsemi, að hún sé ekki bara tilkynningarskyld heldur þurfi hún að fara í umhverfismat. Fjöldi námanna gefur það til kynna og líka umfang margra þeirra. Þetta eru um margt gífurlega stórar námur.

Að allra síðustu langar mig að koma inn á tvö atriði. Í d-lið 1. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„d. efnistakan fer fram á verndarsvæði, sbr. iii-lið 2. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, eða á svæði sem fyrirhugað er að verði friðlýst samkvæmt náttúruverndaráætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi.“

Hefur ekki komið til álita í umhverfisráðuneytinu að efnistaka á svæði sem fyrirhugað er að friðlýsa samkvæmt náttúruverndaráætlun væri óleyfileg? Ég mundi halda að það væri skynsamlegt að gefa ekki kost á malarnámi á svæði sem er friðlýst eða á að friðlýsa. Það væri fróðlegt að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um það að segja.

Ég get ekki séð að í þessu frumvarpi sé neitt sem gefur ríkisvaldinu einhvers konar neyðarrétt sem hefði þyngra vægi en einkaeignarrétturinn. Nú kemur fram að flestar námur eru í einkaeign en það má færa fyrir því gild rök að stundum þurfi að taka fram fyrir hendurnar á eigendum lands sem augljóslega ástunda náttúruspjöll. Svo virðist sem ríkisvaldið hafi, eins og lögin eru núna, engin úrræði til þess. Síðasta spurning mín til hæstv. umhverfisráðherra er um hvort það hafi verið rætt við undirbúning þessa máls. Hver er skoðun hennar á því að ríkisvaldið hafi einhvers konar neyðarrétt til að koma í veg fyrir náttúruspjöll?