131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Náttúruvernd.

184. mál
[14:16]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Því ber að fagna að nú skuli lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd sem varðar eldri námur og frágang þeirra. Það er sannarlega orðið tímabært að sjá þetta mál hér á okkar borðum því mikið ófremdarástand hefur ríkt í þessum málum um nokkra hríð. Það sést vel á greinargerð sem fylgir frumvarpinu þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum og athugasemdum starfshópsins sem vann þessar tillögur fyrir ráðuneytið að víða hefur verið pottur brotinn og í raun og veru skammarlegt að við skulum viðurkenna að hér hafi staðið á annað þúsund námur opnar og ónotaðar um árabil án þess að við höfum getað gert nokkuð í því að loka þeim eða ganga þannig frá þeim að sómi væri að.

Það segir í 49. gr. náttúruverndarlaganna að efnistökusvæði skuli ekki standa ónotað og ófrágengið lengur en þrjú ár og ég veit ekki betur en Náttúruvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, hafi gert gangskör að því við umhverfisráðherra á síðustu missirum að reyna að fá fjármagn í að ganga frá þessum námum eins og lög gera ráð fyrir en það hefur ekki fengist.

Það verður að taka þessi mál það föstum tökum að gengið verði frá opnum og ónotuðum námum og ég sé ekki alveg í hendi mér hvort þetta bráðabirgðaákvæði er fullnægjandi hvað það varðar. Það verður að sjálfsögðu skoðað afar gaumgæfilega í umhverfisnefndinni en í öllu falli er þó alveg ljóst að það sem bráðabirgðaákvæðið hefur í för með sér er allt til bóta. T.d. má nefna að eftir 1. júlí 2007 skuli efnistaka vera óheimil nema að fengnu framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar á svæðum þar sem efnistaka á landi og af eða úr hafsbotni var hafin fyrir 1. júlí 1999 og fullnægir þeim skilyrðum sem tíunduð eru í ákvæðinu. Þetta er því allt til bóta og ekki síst að eftir 1. júlí 2010 skuli þurfa að afla framkvæmdaleyfis fyrir alla efnistöku á svæðum þar sem efnistaka var hafin fyrir 1. júlí 1999 samkvæmt ákvæði VI. kafla náttúruverndarlaganna.

En það þarf samt sem áður að skoða hvort bráðabirgðaákvæðið nær nægilega vel yfir þennan málaflokk og það verður að sjálfsögðu ítarlega skoðað í umhverfisnefndinni.

Eins og ég hóf mál mitt á að segja hafa þessi mál verið í miklum ólestri hingað til og að reglurnar sem við höfum búið við hafi einungis talist ná til eldri námanna að mjög takmörkuðu leyti er auðvitað mjög alvarlegt og umhverfisnefnd verður að sjá til þess að þetta bráðabirgðaákvæði, úr því verið er að hreyfa við þessum málaflokki á annað borð, sé fullnægjandi þannig að við getum talið sóma að.

Sjálfri hefur mér alltaf fundist hálfankannalegt og ekki kannski nægilega vel að orði kveðið í 49. gr. varðandi frágang efnistökusvæða, en í henni segir, með leyfi forseta:

„Að loknum vinnslutíma skal ganga snyrtilega frá efnistökusvæði þannig að sem best falli að umhverfi.“

Það verður að vera alveg ljóst hverjar kröfur beri að gera til þeirra er ganga frá efnistökusvæðum og vera skilgreint með fullnægjandi hætti hvað löggjafinn á við þegar talað er um að ganga snyrtilega frá efnistökusvæði. Sjá verður til þess að Umhverfisstofnun geti gengið eftir því svo viðunandi sé að gengið sé þannig frá efnistökusvæðum að sem minnst vegsummerki sjáist og svæðið falli vel að umhverfinu, en verði ekki flakandi sár sem endalaust ómi söguna út í loftið.

Það er rétt að taka undir það sem starfshópurinn segir, og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, að eðlilegt sé að öll efnistaka í landinu lúti sömu reglum og mér sýnist bráðabirgðaákvæðið sem hér er lagt til að sé bætt inn í náttúruverndarlögin komi til með að gera, að langmestu leyti. En það þarf líka að skoða gaumgæfilega í umhverfisnefndinni hvort hér sé nægilega mikið að gert.