131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:00]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mat þeirra sem best þekkja til þessara hluta á tæknisviðinu að það sé mjög ólíklegt að símafyrirtækin treysti sér fyrsta kastið miðað við þá tækni og þann búnað sem við búum yfir í dag að ná að dekka svæði í samræmi við það sem frumvarpið gerir ráð fyrir umfram 60%, eða 75%, nema með feiknarlega miklum kostnaði. Það er talið mjög ólíklegt í þeim áfanga sem við gerum ráð fyrir hér að við náum miklu meiri útbreiðslu en svo að það miðist fyrst og fremst við þéttbýli. Þetta er ekki tækni sem hægt er að bera saman við gagnaflutninga á grundvelli ADSL-tækninnar. Það er allt annað mál. Það er fastlínubúnaður sem reyndar getur gengið inn á netkerfi, þráðlaus netkerfi, þannig að það er algjörlega ósambærilegt.

Ég tel að við verðum að fikra okkur áfram með nýtingu þessarar tækni. Sú leið sem hér er farin gerir hóflegar kröfur um útbreiðslu sem á að geta tryggt það fyrst og fremst að við náum þessu innan þéttbýlisins. Þessi búnaður verður ekki alveg á næstu árum fyrir mesta dreifbýlið. Kostnaðurinn er svo gífurlegur að það er ekki hægt að ætlast til þess að notendur greiði fyrir hann en noti hins vegar NMT-kerfin og GSM-síma áfram í mesta dreifbýlinu, á meðan það er og annan búnað sem er hagkvæmari fyrir notendur.