131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:08]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst hvað varðar NMT-kerfið, sem er auðvitað allt annar handleggur ef svo mætti segja, þá er í gangi samningur á milli samgönguráðuneytisins og Landssímans um að NMT-kerfinu verði ekki lokað nema að það sé verulega góður fyrirvari á því. Það eru engar tímasetningar svo ég viti hjá Símanum um lokun á því kerfi. Ég held að það sé ekki á næsta ári. Ég held að það sé alveg ljóst, enda væri það þá ekki í samræmi við samninginn sem á milli ráðuneytisins og Símans er.

Það er alveg ljóst að NMT-kerfið, fyrsta kynslóð farsíma, er á útleið. Það voru ýmsir sem vonuðust til að GSM-símarnir tækju við en við höfum ekki enn þá sætt okkur við þá útbreiðslu sem GSM-símakerfið gefur tilefni til. Ég hef sagt að enn um sinn þyrftu símafyrirtækin að ná að greiða niður meira af þeirri fjárfestingu áður en byrjað yrði að fjárfesta í næstu áföngum eins og þriðju kynslóðinni.

Það er alveg ljóst að við Íslendingar þurfum mjög á þessari fjarskiptatækni, farsímatækninni, að halda í okkar stóra og dreifbýla landi. Þess vegna er mikilvægt að símafyrirtækin finni leiðir sem duga til þess að hægt sé að byggja upp þá þjónustu. Því förum við varlega í þeirri kröfu. Ég tel að afsláttaraðferðin sem hér er veitt, afsláttur á gjaldinu umfram 60%, sé líkleg til þess að hraða uppbyggingunni. Ég held að það væri mjög óskynsamlegt að gera svo harðar kröfur til símafyrirtækjanna að þau treysti sér ekki til að setja upp þessa þjónustu. Það blasir við ef við gerum of harðar kröfur.