131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:10]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði í lokin. Spurning mín var einmitt sett fram til þess að athuga hvort ráðherrann væri sammála því að stigmagnandi afsláttur yrði veittur fyrir dreifingu til hinna dreifðu byggða, þannig að við sætum ekki uppi og þyrftum að rífast um það eftir fimm, sex eða sjö ár á hinu háa Alþingi líkt og er að gerast núna með ADSL-þjónustuna til ýmissa smástaða sem sitja eftir, sem eru skildir eftir í mónó, ef svo má að orði komast, meðan allir aðrir eru í steríó, svo maður noti gamla samlíkingu. (Gripið fram í: Mónó var nú ágætt.) Já, kannski í huga hæstv. samgönguráðherra, en ég held að það sé nú úrelt samt sem áður og menn sætti sig ekki við það.

Önnur spurning sem ég vil leggja fyrir hæstv. ráðherra er um vinnu vegna fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010. Eins og sagt hefur verið frá á heimasíðu ráðuneytisins stendur hún yfir. Nefnd sem er skipuð embættismönnum á að kanna m.a. breiðbandsvæðingu landsins, stafrænt sjónvarp, farsímasamband á þjóðvegum og fleira. Þessum stýrihópi var ætlað að skila nýrri fjarskiptaáætlun eigi síðar en 1. september 2004, núna sem sagt. Ég vil nota hér (Forseti hringir.) stutt andsvar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þeirri vinnu sé lokið.