131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:46]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem var og er ágæt. Hún minnir okkur á að að jafnaði þegar fjarskiptamál eru annars vegar þá taka menn allt sviðið. Hér erum við að tala um frumvarp til laga sem snýst um það að úthluta þessum þriðju kynslóðar leyfum. En hér ræða menn að sjálfsögðu fjarskiptamálin svona í víðu samhengi.

Af því tilefni langar mig til að fara nokkrum orðum um fjarskiptamálin almennt. Í fyrsta lagi er ég mjög undrandi á hinum neikvæða tóni sem kom mjög skýrt fram hjá hv. þingmanni sem síðast talaði, Kristjáni L. Möller, í garð Símans. Staðreyndirnar eru þær að mjög fá ríki bjóða upp á betri fjarskiptaþjónustu en er á Íslandi. Hvers vegna skyldi það nú vera? Jú, það er vegna þess að Síminn hefur staðið sig alveg feiknarlega vel í uppbyggingu þessarar þjónustu. Og hann hefur staðið sig ekki síður eftir að fjarskiptalögin gerðu kröfu um að hann ætti í samkeppni við önnur símafyrirtæki og kannski enn betur eftir það. Staðreyndin er sú að upplýsingatæknin er meira notuð hér í gegnum tölvurnar en nokkurs staðar annars staðar. Íslendingar nota internetið alveg ótrúlega mikið og það er m.a. vegna þess hversu útbreitt þetta er. Hvers vegna er þetta svona útbreitt? Vegna þess að við settum ákvæði í fjarskiptalögin sem hv. þm. Kristján L. Möller nefndi hér um að allir skyldu eiga kost á ISDN-tengingunni. Það var algert tímamótaverk. Ef þetta frumvarp er tímamótafrumvarp þá var það tímamótafrumvarp sem var lagt fram haustið 1999 og varð að lögum sem tóku gildi 1. janúar 2000 sem gerðu þá kröfu til símafyrirtækisins að ISDN-tengingarnar væru í boði alls staðar.

Ég get alveg tekið undir það að síðan hefur þróunin verið sú að við gerum meiri kröfur. Síminn, svo ég nefni hann aftur, hefur brugðist við þessu með því að bæta þjónustu sína. Hér var nefnt það sem er kallað ISDN Plús og hefur verið í boði m.a. til bænda sem eru innan Ferðaþjónustu bænda. Það er sítenging sem skiptir mjög miklu máli.

Þetta vildi ég nefna sérstaklega án þess að fara út í tæknileg atriði vegna þess að ég vil hvetja menn til að gæta þess að leyfa Símanum, sem þeir gera svona geysilega miklar kröfur til, að njóta sannmælis því það ágæta fyrirtæki á það svo sannarlega skilið enda er, eins og nýlega hefur verið upplýst, verðlagning og verðlag, þ.e. símgjöld hjá símafyrirtækjunum á Íslandi — og þau eru fleiri — með því lægsta sem gerist.

Ég mátti til með að leggjast í þessa vörn. Ég er nú yfirleitt í sókninni þegar fjarskiptin eru annars vegar. Það hefur verið hlutskipti okkar á Íslandi að sækja mjög hratt fram. En ég bregst til varnar ef menn snúast með ósanngjörnum hætti gagnvart símafyrirtækjunum á Íslandi. Ég er tilbúinn til þess að verja öll símafyrirtækin þegar þau eiga það skilið að hlaupið sé í vörn.

Hv. þm. Kristján L. Möller nefndi hér NMT-farsímabúnaðinn og -þjónustuna. Ég vil segja að samkvæmt samningnum sem ég nefndi hér í andsvari eru ákvæði sem eiga að tryggja það að ef Síminn segir ekki upp þeim samningi fyrir næstu áramót þá verður hann í gildi næstu þrjú árin þannig að það liggur alveg fyrir. En hvort búnaðurinn er að renna sitt skeið, það veit ég ekki. Ég held að það væri mjög gagnlegt einmitt eins og kom fram að samgöngunefndin færi yfir það. Það væri af hinu góða.

Aðeins út af því þá vil ég nefna það hérna að stundum hefur heilmikið verið rætt um hvort farsímarnir séu öryggistæki. Símafyrirtækin hafa verið að skjóta sér í skjól og reynt segja þjóðinni að farsímar séu ekki öryggistæki, í það minnsta ekki GSM-símarnir. Engu að síður auglýsa símafyrirtækin símþjónustuna, GSM-símþjónustuna, sem öryggistæki. Ég horfi á það m.a. í alveg spánýrri sjónvarpsauglýsingu sem er mjög skemmtileg. Þar eru þrír félagar í útreiðatúr, tveir á góðum hestum en einn á nauti. Sá á nautinu dettur náttúrlega af baki og situr eftir í eyðimörkinni með GSM-farsímann sinn. Hvaða ábending er það til notenda? Jú, ábending um að þeir séu öruggir í auðninni með símann sinn.

Annað símafyrirtæki auglýsir á svipuðum nótum þar sem ungt par er í óbyggðum, væntanlega á Íslandi, alveg örugglega, þar sem er hraun og urð og grjót en vegur og bilaður bíll. Herrann er að reyna að gera við bílinn en stúlkan er úti í kanti með farsímann sinn að reyna að ná sambandi við foreldrana, væntanlega til þess að ... (Gripið fram í: Á réttum stað ...) Akkúrat á réttum stað. Það er því mjög ríkulega vakin athygli á því að GSM-símarnir séu öryggistæki. Þess vegna hef ég ekki viljað láta símafyrirtækin komast upp með annað en að kalla eftir því á móti. (KLM: Er Síminn þá ekki að standa sig?) Síminn er að standa sig mjög vel og hann hefur þetta öryggistæki mjög víða í góðu standi. En við erum að gera kröfur og ég heyri það hér hjá þingmönnum að þeir vilja gera kröfur þannig að fólk sé ævinlega hvar sem það er innan þessara öryggismarka. Það blasir alveg við að ef við viljum vera örugg þá verðum við að kynna okkur hvort sendarnir ná til okkar þar sem við viljum vera. Það er staðreynd. En síminn skiptir miklu máli, þ.e. þessi tækni.

Ég þakka hv. 7. þm. Suðurk. ábendingar. Ég tel að hann hafi góð færi á því í samgöngunefndinni að koma með sínar ábendingar um útbreiðslu og kröfur o.s.frv. við umfjöllun nefndarinnar. Ég hvet hann því til þess. Ég vil bara segja það sem kom fram hjá mér lauslega í andsvörum að ég er ósammála honum og Morgunblaðinu um aðferðafræðina. Hvers vegna? Jú, ég vil fara þessa leið, fegurðarsamkeppnisleiðina, vegna þess að í fyrsta lagi tel ég að við tryggjum betur útbreiðsluna með því að gera þessar kröfur. Ýmsum finnst ekki nóg að gert með útbreiðslu, samanber frumvarpið. Ég tel skynsamlegt að fara varlega inn í þessa veröld og gera ekki of miklar kröfur til þess að fæla ekki símafyrirtækin frá. En ég vil gera þessar kröfur og láta fyrirtækin keppa um að þær verði enn þá meiri því það er ekkert sem bannar það. Hins vegar tel ég ekki skynsamlegt að velja þá leið sem ýmsir fóru, að láta fyrirtækin keppa á grundvelli verðsins, vegna þess að það mun fyrst og síðast lenda á notendum. Þeim mun hærra verð sem símafyrirtækin bjóðast til þess að borga fyrir leyfin þeim mun hærri verða símareikningarnir sem notendur þurfa að greiða. Það blasir við. Ég held því að leiðin sem hér er valin verði farsæl. Ég vona að hv. þingmenn geti sameinast um að afgreiða þessa löggjöf á þeirri forsendu.

Ég tel varðandi ábendingarnar sem hér hafa komið fram að skoða beri þessa útbreiðslukröfu, að sjálfsagt sé að líta yfir það. Hins vegar er þá algerlega nauðsynlegt að kalla fulltrúa símafyrirtækjanna fyrir samgöngunefndina til þess að fara yfir þetta þannig að þingmenn fái mat símafyrirtækjanna á útbreiðslukröfunum, því það skiptir máli að allar upplýsingar liggi fyrir þegar málið er afgreitt endanlega.

Að öðru leyti þakka ég enn og aftur fyrir viðbrögðin við þessu frumvarpi og vænti þess að eiga gott samstarf við þingmenn um að koma þessu í gegnum þingið fyrir jól og þannig að þetta frumvarp verði að lögum.