131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:56]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði að Síminn hefði staðið sig feiknarlega vel. Það má ábyggilega taka undir það á mörgum sviðum í rekstri Símans, hins vegar ekki öllum. Ég andmæli því og neita því að fram komi neikvæður tónn í garð Símans þó við séum að draga hér fram ýmislegt varðandi ADSL-þjónustu Símans eins og staðan er í dag. Ég neita því. Ég tel t.d. ekki að neikvæður tónn í garð Símans hafi komið fram hjá hæstv. samgönguráðherra, virðulegi forseti, þó hann hafi gagnrýnt það að Síminn og símafyrirtækin líti ekki á GSM-síma sem öryggistæki, eins og hæstv. ráðherra gerir og við erum sammála um. Ég tel að hæstv. samgönguráðherra hafi ekki verið með neikvæðan tón í garð símafyrirtækjanna þó hann bendi á þessi atriði og hafi lýst auglýsingunum vel.

Ég vil aðeins í lokin, virðulegi forseti, spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það hvað Síminn hefur staðið sig feiknarlega vel á þessum sviðum, eins og hann orðaði það. Getur verið að Síminn hafi staðið sig feiknarlega vel gagnvart íbúum Hríseyjarhrepps, svo við tökum dæmi, sem fá ekki þessa þjónustu eins og flestir íbúar landsins, sitja ekki við sama borð og aðrir og geta ekki veitt börnum og unglingum sömu möguleika og eru á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Trabant versus Mercedes Benz? Telur hæstv. ráðherra að Síminn, sem einu sinni var hér við Austurvöll, hafi staðið sig feiknarlega vel með því að láta þessa 180 íbúa borga fjárfestinguna sjálfa í stað þess að fjármagna þessa tæknilausn sjálfur og bjóða notendum að kaupa þjónustuna bara eins og annars staðar, t.d. í Stykkishólmi, Siglufirði eða hvar sem er? Er þetta að standa sig feiknarlega vel?