131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Forræði yfir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

16. mál
[16:42]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem fram hefur farið um þingsályktunartillögu okkar um forræði yfir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ég vil fara örfáum orðum um þær vangaveltur sem fólk hefur komið með.

Fyrst vildi ég beina orðum mínum til hv. þm. Örlygs Hnefils Jónssonar. Þótt þessi umræða sé ekki um nýtingu orkunnar sem slíkrar heldur um rammaáætlunina og forræði hennar þá kom hv. þm. inn á að öflugt atvinnulíf væri forsenda byggðar í landinu. Ég tek undir með hv. þm. hvað það varðar. Hins vegar fullyrði ég að öflugt atvinnulíf er sannarlega hugsanlegt á þessu landi til sjávar og sveita án stóriðju. En hingað til hefur hæstv. iðnaðarráðherra, sem stjórnar líka byggðamálum, aðeins haft eitt tilboð til byggðanna í landinu. Það tilboð heitir stóriðja.

Byggðirnar hafa verið sveltar til hlýðni undir stóriðjustefnu þessarar ríkisstjórnar. Það er vandamálið. Sjóndeildarhringurinn hjá þessari ríkisstjórn leyfir ekki aðra kosti en stóriðju. Menn hjá ráðuneytunum kunna að laða til sín stóra erlenda auðhringa. Þeir kunna að selja undan okkur landið til sömu auðhringa fyrir virkjanaáform sem tilheyra þessari stóriðju en það virðist ekki hafa hvarflað að ráðherrum okkar að kannski mætti þjálfa fólkið okkar í ráðuneytunum í að útvega annars konar atvinnutækifæri og byggja upp annars konar iðnað.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum oft verið skömmuð fyrir að segja að við viljum „bara eitthvað annað“ — innan gæsalappa Framsóknarflokksins. Ég vil í því sambandi vitna til orða hagfræðings nokkurs sem hefur skipt sér mikið af þessum málum, Sigurðar Jóhannessonar, sem er öflugur hagfræðingur á sínu sviði. Hann hefur einmitt sagt, í ræðum um þessi mál, að það eigi að hjálpa fólki úti á landi að gera eitthvað annað, treysta á hugarflug og hugmyndir fólksins sem byggir landið í stað þess að koma upp ríkisskipaðri stóriðju á stalínískan máta. Auðvitað færi það byggðarlagi hv. þm. Örlygs Hnefils Jónssonar miklu betur að byggja upp öflugt atvinnulíf í kringum annað en stóriðju. En ekki meira um þessi mál núna.

Mig langar að fara örfáum orðum um ummæli hv. þm. Katrínar Fjeldsted. Ég þakka sannarlega þann stuðning sem þessi tillaga hefur hjá henni. En varðandi hugmyndir hennar um að flytja þingsályktunartillögu um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum þá vil ég taka fram að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa flutt slíka tillögu, að ég held árlega síðan flokkurinn varð til. Við höfum talað fyrir henni hvað eftir annað og fengið umsagnir um hana í nefnd. Þessi tillaga hefur fengið mjög jákvæðar umsagnir og mikinn stuðning.

Það er auðvitað hryllilegt það slyðruorð sem ríkisstjórnin þarf að reka af sér í þessu máli. Auðvitað á fyrir löngu að vera búið að stækka friðland Þjórsárvera og hverfa frá öllum virkjanaáformum, þar með við Norðlingaölduveitu og annars staðar í Þjórsá. Þjórsárver eru perla á heimsmælikvarða og eiga auðvitað, eins og hv. þm. benti á, heima á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

En á meðan við tölum um það, ég og hv. þm. og fleiri náttúruverndarsinnar hér inni þá fara stjórnvöld offari í áformum sínum í að taka upptakakvíslir Þjórsár og virkja þær. Fyrir hvað? Fyrir áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu.

Á sama tíma erum við að fá tölur frá atvinnufyrirtækjum úti um land sem eru í ferðaþjónustu, ég nefni bara Íslenska fjallaleiðsögumenn. Hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum hefur veltan af ferðamönnum, sem eru flestir erlendir þó íslenskum ferðamönnum fari líka fjölgandi, en velta Íslenskra fjallaleiðsögumanna virðist vaxa ár frá ári um 60% á milli ára. Eru menn svo glámskyggnir að þeir ímyndi sér að ferðamenn sem fara upp á hálendið með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum séu komnir til að skoða virkjanalón, mannvirki og framkvæmdir?

Ónei, auðvitað er þetta fólk komið til að skoða náttúruperlur á borð við Þjórsárver og aðrar náttúruperlur í ósnortinni auðn Íslands. Það eru þessi verðmæti sem við verðum að fara að viðurkenna að séu jafn verðmæt eða jafnvel verðmætari en þau sem eru fólgin í að virkja fallvötnin okkar til stóriðju.

Það er ekki langt síðan ég heyrði annan hagfræðing, sem er líka mikilsvirtur í samfélaginu, halda því fram — og það er náttúrlega eitthvað sem hefur verið fjallað um og skrifaðar lærðar greinar um — að tapið á Kárahnjúkavirkjun verði að öllum líkindum 36 milljarðar. 36 milljarða tap á Kárahnjúkavirkjun samkvæmt útreikningi hagfræðingsins Þorsteins Siglaugssonar, og á þeim sama fundi sem var nýverið haldinn í Reykjavíkurakademíunni kom fram að nú þegar væri Landsvirkjun búin að eyða um 20 milljörðum í framkvæmdina.

Þorsteinn Siglaugsson leyfði sér að segja, og ég ætla að taka undir orð hans, að af því reikningsdæmi sæist að enn borgaði sig fyrir okkur Íslendinga að hætta við Kárahnjúkavirkjun bara út frá efnahagslegum forsendum, því ef maður dregur 20 milljarða frá 36 þá eru þó 16 milljarðar sem stjórnvöld virðast ætla að halda áfram að tapa. En meðan við erum þeim megin í dæminu borgar sig sem sagt út frá þessum sjónarmiðum að hætta við Kárahnjúkavirkjun. Þegar búið væri að eyða 36 milljörðum í hana borgaði sig ekki lengur peningalega að hætta við hana. Þetta eru nú þær vangaveltur sem menn eru með í þessum efnum hér í kringum okkur.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson talaði um að það hefði komið sér á óvart þegar hann las þessa þingsályktunartillögu að forræði rammaáætlunarinnar væri á höndum iðnaðarráðherra og ég lái honum það ekki. Ég er sannfærð um að það er fjöldi fólks sem hefur heyrt talað um þessa rammaáætlunarvinnu sem gerir sér enga grein fyrir því að iðnaðarráðherra stjórni henni, svo langsótt er það nú. Það er því alveg eðlilegt að fólk reki í rogastans þegar það kemst að því að ríkisstjórnin hafi komið þessari vinnu þannig fyrir að iðnaðarráðherra, stóriðjupostuli ríkisstjórnarinnar, hafi rammaáætlunarvinnuna á forræði sínu, og það er sannarlega orðið tímabært að því ábyrgðarmikla hlutverki verði skipt á milli ráðuneyta og það sett á hæstv. umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytið.

Hv. þm. Þuríður Backman talaði um sjálfbæra þróun og hversu erfitt virtist vera fyrir ríkisstjórnina að skilja hugtakið og hugmyndafræðina sem liggur að baki sjálfbærri þróun. Það er alveg skelfilegt hvernig ríkisstjórnin reynir í auknum mæli að skreyta sig með fjöðrum sem tilheyra sjálfbærri þróun og er skemmst að minnast hátíðahaldanna á íslensku menningarhátíðinni sem haldin var í París nýlega, en þar voru bæði ráðamenn og jafnvel forkólfar í orkuiðnaði að halda lærðar tölur um sjálfbæra þróun, vitandi að enginn fótur er fyrir því að virkjanaáform Íslendinga eins og þau líta út núna séu með sjálfbærum hætti. Það er ekki hægt að kalla virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun sjálfbæra virkjun eða stæra sig af því að við nýtum endurnýjanlegar orkulindir okkar þegar við gerum það á þann hátt sem raun ber vitni, með gífurlegum uppistöðulónum sem valda gífurlegri eyðileggingu, ekki bara á lónstæðinu sjálfu heldur á svo stóru svæði umhverfis, og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni varðandi Kárahnjúkavirkjun, allt til sjávar í Héraðsflóa.

Þegar fyrsti áfangi rammaáætlunarinnar sem liggur fyrir er skoðaður þá kemst maður að því hversu lítið er eftir af vatnsafli eða ég tala nú ekki um stórum fallvötnum sem á eftir að virkja á Íslandi, sem er í raun og veru mjög merkilegt. Það má segja að aðeins séu tvær stórár eftir, a.m.k. þegar horft er á þessa stóriðjufíkn, og það eru Jökulsá á Fjöllum og Hvítá í Árnessýslu. Það eru stóru fallvötnin sem eftir eru og maður spyr sig: Ætla menn í þær ár? Ef stóriðjuáform iðnaðarráðherra og ríkisstjórnarinnar halda áfram á þeirri siglingu sem þau hafa verið á hingað til þá er ekki um mikið annað að ræða en Hvítá í Árnessýslu og Jökulsá á Fjöllum, það er bara þannig. Í jarðhitanum skortir okkur gífurlega rannsóknir og núna hefur hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin öll komið því svo fyrir með breytingum á raforkulögunum að orkufyrirtækin eru öll komin í kapphlaup um að virkja fallvötnin okkar. Menn þekkja kapphlaupið bæði hvað varðar vatnsföllin og háhitasvæðin. Það er varla lengur til það háhitasvæði á landinu þar sem ekki er búið að setja inn borpall og borpallarnir útheimta stórt borplan og þangað þarf að leggja vegi og það þýðir að nú þegar er búið að skemma með rannsóknarleyfum stóran hluta af háhitasvæðunum okkar, sem eru einstök á heimsmælikvarða mörg hver.

En ég segi og ítreka enn og aftur: Vinnan við rammaáætlunina er gífurlega mikilvæg en hún verður að vera gerð með réttum formerkjum. Hún verður að vera gerð á grundvelli umhverfismála, umhverfissjónarmiða, náttúruverndar, og eins og ég hef sagt áður, þetta er í eðli sínu skipulagsmál sem heyrir auðvitað undir umhverfisráðherra en ekki iðnaðarráðherra. Hér eru því öll rök, skynsemdarrök sem mæla með því að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt og forræði vinnunnar verði flutt úr skúffu iðnaðarráðherra, þar sem ekkert mun verða gert með þetta, og inn til umhverfisráðherra sem við skulum vona að taki nú brýningum og sjái til þess. — Ég tek undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar, auðvitað hefði maður óskað eftir því að hæstv. umhverfisráðherra væri hér viðstaddur og þá ekki síður hæstv. iðnaðarráðherra. En það er sá plagsiður hæstv. ráðherra að þeir telja sig aldrei þurfa að vera viðstadda þegar verið er að ræða þingmál almennra þingmanna. Það er auðvitað skammarlegt að þeim málum sem hér um ræðir skuli ekki vera sýnd meiri virðing af hæstv. ráðherrum en þetta.

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið og treysti því að þessi þingsályktunartillaga fái öfluga umfjöllun í umhverfisnefnd og vona auðvitað að hún eigi síðan eftir að líta dagsins ljós í 2. umr. í þinginu innan skamms.