131. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2004.

Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík.

[13:32]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í gær undirritaði hæstv. menntamálaráðherra samkomulag um sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Sameiningin felur í sér afnám efnahagslegs jafnréttis til náms á háskólastigi á Íslandi því með henni verður nám í ákveðnum tæknigreinum ekki lengur í boði í landinu nema gegn greiðslu hárra skólagjalda.

Það hangir meira á spýtunni því Háskólinn í Reykjavík ætlar sér líka að hefja kennaranám á háskólastigi. Ef fjárlagafrumvarpið er skoðað kemur í ljós að HR fær hækkað framlag sem nemur 60 ársnemum í kennaranámi næsta haust sem þýðir væntanlega 120 ársnemar árið 2006. Á sama tíma standa Kennaraháskólinn og Háskóli Íslands sveittir við að takmarka nemendafjölda vegna þess þrönga stakks sem ríkisstjórnin sníður þeim í fjárlögum. Hvað er eiginlega í gangi, hæstv. forseti? Er að myndast einhver sjálftökuréttur ákveðinna aðila varðandi fjármuni til menntunar?

Hæstv. fjármálaráðherra heldur því fram í Morgunblaðinu í dag að við séum eftirbátar annarra þjóða í tæknigeiranum. Ég spyr: Höfum við verið eftirbátar vegna þess að við höfum ekki innheimt skólagjöld af stúdentum í tæknigreinum? Eða eftirbátar vegna þess að stjórnvöld hafa ekki séð sóma sinn í að leggja það fé til opinberu háskólanna sem þeir hafa þurft til að vaxa og dafna eða hafa ekki forráðamenn Tækniháskólans, áður Tækniskóla Íslands, gengið á milli Heródesar og Pílatusar til að biðja um skilning á fjárþörf tæknimenntunar í landinu?

Herra forseti. Hér þarf að leita svara við mörgum spurningum því að í Tækniháskólanum eru ekki eingöngu nemar á háskólastigi. Þar er líka rekin raungreinadeild ætluð starfandi iðnaðarmönnum og verkmenntuðu fólki. Hvað verður um hana? Á það fólk sem ætlar sér að taka ígildi stúdentsprófs að fara að borga 200 þús. kr. í skólagjöld á ári?

Herra forseti. Það er greinilegt að hér er einhvers konar stefnumörkun í gangi en hún fer öll fram á bak við tjöldin, með baktjaldamakki og laumuspili. Alþingi Íslendinga er ekki upplýst, ekki heldur menntamálanefnd Alþingis og ég leyfi mér að efast um að stjórnarflokkarnir hafi umboð kjósenda sinna til að ganga svona langt á markaðsvæðingu náms á háskólastigi.

Hæstv. forseti. Með lymskubrögðum er sjálfstæðismönnum að takast að gera allt nám á háskólastigi gjaldskylt. (Forseti hringir.) Skólagjaldapólitík Sjálfstæðisflokksins er sú menningarpólitík sem rekin er á Íslandi. Ég mótmæli henni.