131. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2004.

Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík.

[13:34]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þess var ekki að vænta að hv. upphafsmaður umræðunnar hafi séð tækifærin sem felast einmitt í því að sameina þessa tvo skóla. Þegar ég kom í ráðuneytið komu forráðamenn þessara tveggja skóla báðir að máli við mig og vildu halda áfram að reyna að efla starfsemi skólanna og voru með mjög svipaðar hugmyndir uppi um það, þ.e. að auka áfram rekstrarfræðina í báðum skólunum og koma á laggirnar verkfræðinámi. Ég taldi einsýnt að rétt væri að skoða aukna samvinnu þessara háskóla og hugsanlegt samstarf sem leiddi til þess að menn sáu þennan kost sem var mjög fýsilegur og er mjög fýsilegur að því leytinu til að hér er tækifæri fyrir íslenskt mennta- og atvinnulíf til þess að efla og bæta samfélag okkar bæði inn á við og út á við og sérstaklega í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem við erum í. Þess vegna, virðulegi forseti, er alveg ljóst að hér er um tækifæri að ræða sem ég taldi rétt að grípa. Báðir rektorar skólanna komu að málinu með mjög opnum huga og hafa unnið að sameiningunni í mjög mikilli samvinnu og mikil og góð vinna sem fram fór í kringum málið allt.

Það er rétt að miðað við tölur frá OECD höfum við aðeins verið eftirbátar annarra hvað viðkemur tækni- og verkfræðimenntun og það er ekkert út af einhverju aðgengi annarra háskóla að ríkinu eða ríkissjóði. Menn hafa sýnt með rökum fram á að það hefur vantað ákveðna þætti í raungreinakennslu, m.a. hér á landi, og þetta er einmitt liður minn í því að bæta og efla raungreinar, tækni- og verkfræðimenntun innan lands.

Ástæðan fyrir kennslufræðinni er m.a. sú, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) ég kem að því síðar hver sú ástæða er.