131. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2004.

Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík.

[13:45]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé fyllilega ástæða til þess að fagna samkomulagi því sem hér er til umræðu um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Þessi sameining á ekki að þurfa að koma neinum á óvart því hún hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum á síðustu vikum. Það er alveg ljóst af fréttum að báðir aðilar eru mjög ánægðir með þetta samkomulag og þessa tilhögun enda hefur einnig komið fram að báðir stefndu að því að fara inn á svið sem þóttu áhugaverð og tilefni til þess að efla. Því er alveg ljóst að með sameiningu þessara tveggja stóru og góðu skóla verður til öflugri háskóli. Það verður ákveðin hagræðing, það verða samlegðaráhrif og það er alveg ljóst að þarna myndast tækifæri til þess að efla menntun fyrir landsmenn.

Ég held einmitt að aðkoma menntamálaráðherra að þessu máli tryggi það að þessi nýi og sameinaði skóli fái góðan heimanmund og góðan stuðning frá stjórnvöldum. Ég held því að við ættum að nota tækifærið og óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með að taka ákvörðun sem þessa sem sýnir kjark hennar í þessu máli eins og svo mörgum öðrum sem við höfum orðið vitni að á síðustu vikum.