131. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2004.

Sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík.

[13:52]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að efla og auka tækifæri ungra íslenskra námsmanna til þess að grípa þau tækifæri sem gefast núna þegar kemur að tækni- og verkfræðinámi. Ég vil aðeins fara í gegnum forsögu þessa. Það er alveg ljóst, og ég vona að menn hafi tekið eftir því, að fyrir um það bil sex vikum síðan var send út fréttatilkynning. Allir voru látnir vita að í hönd færu viðræður um hugsanlega aukna samvinnu og hugsanlega um sameiningu þessara tveggja háskóla. Það er alveg kristaltært. Send var út fréttatilkynning um að þessar viðræður ættu sér stað og að þessum viðræðum yrðu væntanlega gefnar fjórar til sex vikur til þess að komast að niðurstöðu. Allir gátu því fylgst með þessu ferli. Þetta ætti ekki að koma (Gripið fram í.) nokkrum á óvart.

Síðan vill svo vel til að niðurstaðan var sú sem var kynnt í gær, þ.e. viljayfirlýsing um að sameina eigi þessa tvo skóla, sem ég enn og aftur ítreka að er tækifæri fyrir íslenskt menntafólk. Þessi viljayfirlýsing fór í gær í gegnum ríkisstjórn þar sem henni var vel fagnað. Hún hefði auðvitað ekki farið í gegnum ríkisstjórn nema á þeim grundvelli að allir hefðu verið henni sammála og allir vitað um hana. Svo einfalt er það.

Það kemur svo sem ekkert á óvart að hér eru þingmenn, til að mynda frá Samfylkingu, á móti þessari sameiningu og segja að það átti ekki að gera hana svona og það á ekki að gera hana á hinsegin og að þetta séu fínar sameiningar en bara ekki þessi. Ég vil meina að ég hefði sýnt ákveðið ábyrgðarleysi, ákveðið andvaraleysi ef ég hefði ekki gripið tækifærið sem ég sá felast í því að sameina þessa tvo skóla. Það er verið að efla tækni- og verkfræðimenntun í íslensku atvinnu- og menntalífi. Við erum líka með nám í kennsluréttindum, þ.e. kennslufræði sem verður með sérstaka áherslu á raungreinar. Allt er þetta gert með það í huga að efla okkur þegar kemur að tækni- og verkfræðimenntun.