131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:03]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Kristjáns Möllers, fór forsætisráðherra þess á leit við alþingismennina Halldór Blöndal og Magnús Stefánsson, í byrjun árs 2003, að vera með sér í ráðum um þau mál sem hann rakti og ég ætla ekki að rekja frekar. Þeir funduðu með einstökum ráðherrum og öfluðu upplýsinga um hvaða verkefni og störf hefðu verið færð til landsbyggðarinnar eða áform væru um að færa þangað. Þeir skiluðu skýrslu sinni til forsætisráðuneytisins í nóvember.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að í viðræðum við ráðherra ríkisstjórnarinnar hafi komið fram vilji til að nýta þau tækifæri sem gæfust til að styrkja opinbera þjónustu á landsbyggðinni með því að flytja þangað verkefni og störf sem bæði eru takmörkuð við staðbundna þjónustu sem og þjónustu við stærri svæði.

Skýrsluhöfundar benda á að því séu ýmsar skorður settar hversu hratt og í hve ríkum mæli slíkur flutningur á verkefnum og störfum geti orðið. Í því sambandi vilja þeir að áhersla verði einkum lögð á eftirfarandi:

„Að styrkja þær stofnanir sem eru til staðar á landsbyggðinni, m.a. með því að færa til þeirra verkefni þar á meðal frá öðrum ráðuneytum. Í því sambandi megi m.a. nefna menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, rannsóknastofnanir, embætti sýslumanna og skattstofur.

Að fjölga störfum sem krefjast háskólamenntunar. Beina beri athygli sérstaklega að einum byggðarkjarna í hverjum landsfjórðungi sem síðar með margfeldisáhrifum getur haft jákvæð áhrif á störf og búsetu í nálægum byggðarlögum. Í því sambandi beri einkum að hyggja að eflingu menntastofnana og sjúkrahúsa. Jafnframt sé mikilvægt að styrkja þá vísa að rannsóknastarfsemi sem byggðir hafa verið á landsbyggðinni með fjölgun verkefna og samstarfi fleiri stofnana.“

Þegar skýrsluhöfundar, hv. þingmenn Halldór Blöndal og Magnús Stefánsson, ræddu við einstaka ráðherra haustið 2003 var kjörtímabilið nýlega hafið og takmarkað ráðrúm hafði gefist til að móta aðgerðir í þessa veru á kjörtímabilinu. Því hefur forsætisráðherra farið þess á leit við þá að afla að nýju upplýsinga um áform einstakra ráðherra um að auka verkefni og fjölga störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

Skýrsluhöfundar hafa skrifað ráðherrum bréf þar sem þessara upplýsinga er óskað og er þess að vænta að svör þeirra berist á næstu dögum og vikum. Í framhaldi af þeim svörum verður hugað nánar að mótun áætlunar um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni.

Ég vil hins vegar taka fram að áætlanir eru góðra gjalda verðar. Menn mega ekki tala, eins og mér fannst hv. þm. gera, eins og almennt sé ekkert að gerast í þessum málum. Hér var sérstaklega lögð áhersla á menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir og rannsóknastofnanir. Það er verið að byggja upp skóla um allt land. Ég vil nefna Háskólann á Akureyri, Hvanneyri og Bifröst. Ég vil nefna háskólasetur á Vestfjörðum og Austurlandi. Þessi starfsemi er öll í miklum blóma. Það hefur tekist að efla verulega heilbrigðisstofnanir úti á landi og rannsóknastarfsemi fer vaxandi.

Nýlega kom fram að aðeins hefði fjölgað í tveimur landshlutum á síðasta ársfjórðungi, það er á Austurlandi og Suðurlandi. Það er víða blómlegt í landinu öllu. Þess vegna mega menn ekki tala á Alþingi með þeim hætti að það sé nákvæmlega ekkert að gerast, eins og mér finnst hv. þm. oft gera og tala kjarkinn úr landsmönnum.