131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:10]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það var að mörgu leyti athyglisvert að hlusta á svör hæstv. ráðherra áðan. Þar kom fram að verið er að gera nýja skýrslu og nýjar tillögur til að vinna eftir. Einnig kom fram að hv. ráðamenn vita hvað þarf að gera. Þeim verður aftur á móti allt of lítið úr verki.

Ég ítreka það sem kom fram í máli hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, að í Norðvesturkjördæmi hefur opinberum störfum farið fækkandi. Ég vil nota þetta tækifæri til að minna ráðherrann aftur á orð hans um að röðin væri komin að því kjördæmi ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta verða af því að fjölga opinberum störfum úti á landi. Á því er sannarlega þörf.

Ég bendi einnig á að þær stofnanir sem hafa verið í vexti og ráðherrann taldi upp eru ekki í vexti fyrir frumkvæði ríkisstjórnarinnar heldur fyrir frumkvæði þeirra sem þeim stjórna.