131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:11]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Það er gott að hv. þm. Kristján L. Möller skuli hafa vakið máls á því hvernig unnið er að því að fjölga verkefnum og opinberum störfum úti á landi. Það er sérstaklega ánægjulegt að hann skuli gera það nú í dag. Eftir tvo daga munum við fara saman til Akureyrar til að fagna því að tekið verði í notkun mikið rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri sem hinar ýmsu rannsóknastofnanir ríkisins standa að. Það mun gerbreyta öllum möguleikum háskólans, Akureyringa, Norðurlands og raunar landsbyggðarinnar allrar til að láta að sér kveða á þeim vettvangi.

Víðar á landinu er unnið að uppbyggingu á ýmsum stofnunum og ýmsum stöðum en auðvitað er ekki hægt að gera áætlun um þessi efni í eitt skipti fyrir öll. Við verðum að vinna að þessu jafnt og þétt og fylgjast með því sem er að gerast. Það endurspeglast m.a. í þeim fjárlögum sem samþykkt verða fyrir næsta ár.