131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Opinber verkefni og þjónusta á landsbyggðinni.

81. mál
[14:18]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Mér heyrist hv. fyrirspyrjandi vera í eitthvað vondu skapi í dag. Ekki veit ég af hverju.

Það er alveg rétt hjá honum og öðrum, það er ekki nóg að semja skýrslur. Það er verið að vinna á grundvelli þess sem kom fram í skýrslu þessara ágætu þingmanna á sviði menntamála, heilbrigðismála og rannsóknastarfsemi. Er eitthvað að því að því sé fylgt eftir og það sé komið nánar að því eins og hefur verið ákveðið? Ég botna ekkert í þessum málflutningi.

Hér koma menn og segja: Það á ekkert að semja fleiri skýrslur. Gott og vel. (KLM: Aðgerðir.) Gott og vel, aðgerðir. Svo kemur hv. þm. og segir: Hvað á að gera fyrir 1.500 manna byggðarlag sem er að tapa störfum? Gæti verið að til stæði að bæta samgöngur til þessa sama byggðarlags, er það hugsanlegt? Ekki minntist hv. þm. á það þótt alveg sé ljóst að víða í landinu er veruleg andstaða gegn því.

Svo kemur hv. þm. upp skipti eftir skipti og segir að ekkert sé verið að gera í þessum málum. Mér þætti gaman að vita hvernig hv. þm. talar í eigin þingflokki um þessi mál. Fær hann engar undirtektir þar? Er það þess vegna sem það liggur oft svona mikið við í þingsalnum?

Það er margt jákvætt að gerast, hv. þingmaður, um allt land. Það er mikilvægt að viðurkenna það, sem mér finnst að hv. þm. sé mjög tregur til, en um leið ber að sjálfsögðu að viðurkenna að víða má betur gera.