131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna milli landshluta.

84. mál
[14:24]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að taka fram að ég fer ekki með skattamál í ríkisstjórninni. (KLM: ... en þú samþykktir það.) Það verður að hafa hlutina rétta. Þegar hv. þm. koma með fyrirspurnir hérna varða þær tiltekna ráðherra.

Í núgildandi byggðaáætlun er fjallað um að ríkisstjórnin láti fara fram heildarathugun á mismunandi starfsskilyrðum atvinnuveganna eftir landshlutum og á áhrifum þeirra opinberu aðgerða sem þegar hefur verið beitt til jöfnunar starfsskilyrða. Þessi athugun hefur þegar farið fram. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni fól ég sem iðnaðarráðherra Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Byggðarannsóknastofnun við Háskólann á Akureyri að gera heildarúttekt á búsetuskilyrðum fólks og fyrirtækja í landinu. Rannsóknin var unnin á tímabilinu frá júlí 2002 til janúar 2003 og birtust niðurstöður hennar í skýrslunni Fólk og fyrirtæki.

Í skýrslunni er m.a. bent á að flokka megi byggðaaðgerðir í fjóra hluta:

1. Beinn og óbeinn fjárhagslegur stuðningur, svo sem lánveitingar, áhættufjármagn, ábyrgðir o.fl.

2. Óbeinir hvatar, svo sem samgöngubætur, aðgerð í menntamálum o.fl.

3. Niðurgreiðslur á ýmsum kostnaði, svo sem flutningskostnaði, námskostnaði, húshitun o.fl.

4. Skattalegir hvatar til ákveðinna svæða.

Í skýrslunni er sérstaklega bent á aðgerðir hvað varðar flutningskostnað, menntun, samgöngubætur og fjarskipti sem mikilvægar áherslur. Einnig er bent á að samhliða verði þrír meginbyggðarkjarnar á landsbyggðinni efldir til að þessar áherslur skili sér með sem mestum árangri.

Unnið hefur verið markvisst að þessum áherslum sem og öðrum er þessu tengist í byggðaáætluninni, enda verður að hafa í huga að flestar aðgerðir á sviði byggða- og atvinnumála hafa bein og óbein áhrif á starfsskilyrði fyrirtækja. Í þessu sambandi má m.a. nefna eftirtaldar aðgerðir og áherslur:

1. Lækkun flutningskostnaðar. Iðnaðarráðuneytið hefur verið að kanna möguleika á að teknar verði upp endurgreiðslur til framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni á hluta flutningskostnaðar. Byggt er á tillögum starfshóps sem samgönguráðherra skipaði haustið 2001 og greinargerð Byggðastofnunar um málið. Umfjöllun um þessar tillögur stendur yfir.

2. Efling menntunar á landsbyggðinni. Iðnaðarráðuneytið hefur unnið í samstarfi við menntamálaráðuneytið um eflingu náms á landsbyggðinni þar sem verja á 300 millj. í þrjú ár til verksins. Þetta varðar verkefni svo sem háskólanámssetur á Egilsstöðum, fræðslusetur á Húsavík, eflingu þjónustu vegna háskólanáms og símenntunar á Vestfjörðum, eflingu símenntunarstöðva um land allt sem og mörg önnur verkefni.

3. Samgöngubætur. Ekki þarf að rekja hér þær margvíslegu og umfangsmiklu aðgerðir sem eru í gangi varðandi samgöngubætur víða um land en góðar samgöngur á milli sem og innan svæða eru meðal hornsteina í sjálfbærri þróun byggða sem og starfsskilyrðum atvinnulífsins. Á árinu 2003 var ákveðið að verja verulegum fjárhæðum til samgöngubóta á landsbyggðinni að upphæð 4,2 milljarðar kr. Enn er verið að vinna að verkefnum sem þessu tengjast eins og allir vita sem hér eru.

4. 230 millj. varið til lækkunar á dreifingarkostnaði á raforku. Í tengslum við ný lög um raforkukerfi verður 230 millj. kr. varið á ári til lækkunar á dreifingarkostnaði á raforku sem bætir m.a. starfsskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni. Þetta kemur til framkvæmda á næsta ári.

5. Fjarskipti í dreifbýli. Unnið hefur verið að endurbótum er varða fjarskiptamál í dreifbýli, svo sem með verkefni samgönguráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis, „Upplýsingatækni í dreifbýli“, þar sem unnið er m.a. að því að stórbæta flutningsgetu grunnnetsins og fleira og verkefninu „Rafrænt samfélag“ sem hefur m.a. að markmiði að auka nýsköpun, menntun og menningarstarfsemi, bæta heilsugæslu og efla lýðræðið.

6. Byggðarkjarnar efldir. Í júlí 2004 var undirritaður vaxtarsamningur Eyjafjarðarsvæðisins þar sem áhersla er lögð á að efla Eyjafjarðarsvæðið sem byggðarkjarna Norðurlands með markaðstengdum aðgerðum þar sem m.a. er lögð áhersla á eflingu klasa í atvinnulífi. Einnig er starfandi verkefnisstjórn um byggðaaðgerðir á Vestfjörðum sem þegar hefur skilað tillögum um aðgerðir sem þegar hefur verið hrint í framkvæmd eða eru í frekari vinnslu sem miða að því að efla Ísafjörð sem byggðarkjarna Vestfjarða.

Hæstv. forseti. Það er hægt að nefna ýmsar aðrar aðgerðir sem ekki komast að í þessu stutta svari en það vill svo vel til að á morgun verður umræða á hv. Alþingi um framkvæmd byggðaáætlunar. Þar getum við farið vítt og breitt yfir sviðið og ég kvíði ekki þeirri umræðu því að ég tel mikilvægt að fara yfir stöðuna. Það vill svo vel til að ég get fullyrt það að staða landsbyggðarinnar hefur batnað mikið.