131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna milli landshluta.

84. mál
[14:31]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra fór hér yfir ýmsa þætti sem verið væri að bæta í þeim málum að jafna aðstöðu.

Ég vil staðnæmast við samgöngubætur. Ég hef hælt ríkisstjórninni úr þessum stól fyrir að mér finnst hún um margt hafa staðið sig vel í samgöngubótum á landsbyggðinni. Maður sér að þar er verið að vinna við framkvæmdir. Það er vel.

Það er eins og með efni þessara byggðarkjarna, byggðirnar kalla á það að samgöngur séu bættar. Sú er helsta krafan í vaxtarsamningi fyrir Eyjafjarðarsvæðið að til að jafna skilyrði þurfi að bæta samgöngur. Það er verið að vinna vel í því og fyrir það eigum við að þakka. Auðvitað þarf að gera betur. Ég tala fyrir því að unnið verði að samgöngubótum á þjóðvegi 1, leiðinni Reykjavík – Akureyri. Það mun styrkja allt norðaustursvæðið og Austurland. Það þarf að huga að því sama fyrir Vestfirði, þeir hafa kallað á vegstyttingar.