131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna milli landshluta.

84. mál
[14:33]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði að ástandið á landsbyggðinni hefði batnað mikið. Það er alveg örugglega rétt, á sumum svæðum hefur ástandið batnað mikið. En það hefur hreint ekki batnað á öðrum svæðum. Sá er helsti vandinn í þessum byggðamálum, að ástandið er mjög dapurlegt á stórum svæðum þar sem ekki hefur verið hægt að koma til móts við þau svæði í sambandi við atvinnutækifæri og aðra hluti, hvort sem það hefur verið af pólitískum ástæðum eða öðrum.

Ég ætlaði líka að nefna annað í þessu sambandi af því að hæstv. ráðherra nefndi þetta með niðurgreiðslur á raforku. Ég veit ekki betur en að þeir fjármunir séu fyrst og fremst ætlaðir til að bæta upp hækkanir sem verða á raforku vegna breytingarinnar. Ég spyr bara hæstv. ráðherra hvort það sé virkilega þannig að þetta sé byggðaframlag. Þá hefur okkur verið gerð grein fyrir þessu máli með algjörlega öfugum formerkjum.