131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna milli landshluta.

84. mál
[14:34]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði að ástandið hefði batnað mikið á landsbyggðinni. Eins og fram hefur komið er það eflaust rétt hvað varðar mjög fá tiltekin svæði. Á öðrum svæðum er ástandið því miður alls ekki nógu gott.

Hér voru þuldar upp ótal tölur úr miðstýringu ríkisstjórnarvaldsins á því hvernig peninga landsmanna skuli aflað og þeim eytt til að bæta ástandið á landsbyggðinni. Mér finnst menn alltaf gleyma einu grundvallaratriði í þessu, því að búið er að svipta allt of margar byggðir allt í kringum landið möguleikum sínum til þess að bjarga sér sjálfar á eigin spýtur, til þess að einkaframtakið fái að leysa úr mörgum af þessum vandamálum. Hér á ég að sjálfsögðu við það helsi sem ríkir í þessum byggðum hvað varðar það að fá að nýta sína fremstu auðlind — fiskinn í hafinu.

Þetta er ekkert voðalega flókið mál. Lítum á Vestfirði. Þar eru þorskurinn og ýsan sem ekki má veiða vegna kvótakerfisins búin að éta upp alla rækju við Ísafjarðardjúpið og við Arnarfjörð. Á Siglufirði geta menn ekki veitt rækju vegna þess að verðið er svo lágt — en fá þeir að veiða fisk þegar nóg er af honum við ströndina? Nei, alls ekki, ekki nema borga fyrir hann til kvótagreifanna eða eiga kvóta. Íbúarnir hafa hvorugt.