131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna milli landshluta.

84. mál
[14:38]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. getur verið viss um að ég fer heilmikið um landið og veit tiltölulega vel hvernig ástandið er. Því miður er það ekki alls staðar gott, það skal alveg sagt hér úr þessum stóli. Hins vegar stend ég við það sem ég sagði áðan um að ástandið hefur batnað mjög þegar litið er á heildina. Ég er ánægð með það og stolt yfir því enda sýna tölur batnandi árferði. Það er hægt að sýna það með tölum. Við getum farið betur yfir það í lengri umræðu hér á morgun.

Talað var um opinber störf. Hv. þm. búsettir á Sauðárkróki hafa jafnvel haft stór orð um að lítið af opinberum störfum sé flutt á landsbyggðina en það vill svo til að Byggðastofnun var einmitt flutt til Sauðárkróks. Það er ágætt að halda því til haga. Það var ekki lítil stofnun, það var stór stofnun. Það er sjálfsagt að hrista höfuðið yfir því ef hv. þingmönnum finnst það sæma.

Í sambandi við raforkukerfið var það þannig í gamla kerfinu að Rarik, sem er landsbyggðardreifitæki, þurfti að jafna á milli dreifbýlis, milli sveita og bæja innan kerfisins. Það var álitið að það væru um 500 millj. sem þessar óarðbæru einingar kostuðu. Við fórum í gegnum þetta allt í fyrra, ég hélt að ég þyrfti kannski ekki að gera það aftur núna. Þeir fjármunir sem núna koma á fjárlögum eru til að greiða þennan kostnað vegna þess að fyrirtækið mun ekki gera það í nýju markaðskerfi. Þetta eru nýir fjármunir sem lagðir eru fram til þess að taka á þessu og þetta mun þýða það að öllum líkindum, þótt ég geti ekki fullyrt það á þessari stundu, að raforkuverð hjá Rarik mun lækka þegar þeir þurfa ekki lengur að standa í þessum kostnaði sjálfir.

Talandi um samgöngur er það náttúrlega orðið þannig, ef við tölum um norðausturhornið, að einungis um fimm kílómetrar á milli Akureyrar og Egilsstaða eru ekki malbikaðir. Á föstudaginn á að taka í notkun nýjan veg við Tjörnes. Hvert sem horft er er verið að vinna landsbyggðarmönnum í hag í sambandi við samgöngumál.

Alltaf má betur gera og við skulum tala um það á morgun.