131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Uppgreiðslugjald.

87. mál
[14:41]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Mikillar óánægju gætir með þá skilmála sem bankarnir hafa sett fyrir nýjum fasteignalánum, að hægt sé að taka uppgreiðslugjald ef lán eru greidd upp fyrir gjalddaga. ASÍ og Neytendasamtökin hafa sent Samkeppnisstofnun kvörtun vegna þessa og óskað eftir að Samkeppnisstofnun kanni heimild bankanna til að krefjast uppgreiðsluálags.

Sömuleiðis hefur verið gagnrýnt í skilmálum bankanna og kallað eftir rökstuðningi fyrir ákvæðum sem kveða á um að lántakendur skuldbindi sig til viðskipta við bankann allan lánstímann, kannski 40 ár, ella verður lántakendum refsað með vaxtahækkun og gjaldtöku.

ASÍ kallar slíkt vistarband sem orki mjög tvímælis, og sannarlega teljast þau að mínu viti til óeðlilegra viðskiptahátta.

Neytendasamtökin benda á að lögin um neytendalán geri ráð fyrir rétti neytenda til að standa skil á skuldbindingum sínum fyrir gjalddaga og að hvergi í lögunum sé sá réttur skilyrtur á nokkurn hátt. Telja Neytendasamtökin að fjármálafyrirtæki séu með uppgreiðsluþóknun að rýra ótvíræðan lagalegan rétt neytenda, oftast með einhliða ákvæði í lánasamningi. Samtökin benda einnig á að í lögunum sjálfum og lögskýringargögnum bendi allt til þess að ætlun löggjafans hafi ekki verið sú að heimila uppgreiðsluþóknun vegna neytendalána.

Neytendasamtökin nefna líka að skiptar skoðanir hafi verið um það hvort lán einstaklinga sem tryggð eru með veði í fasteign falli undir lögin um neytendalán. Upphaflega féllu slík lán ekki undir lögin. Hins vegar var gildissvið laganna útvíkkað með lagabreytingu sem tók gildi þann 14. desember 2000. Það sé því óumdeilanlegt að veðlán einstaklinga sem tekin voru eftir lagabreytinguna falli undir lögin. Þessi skoðun Neytendasamtakanna er í samræmi við nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar í desember árið 2000.

Það eru vissulega, herra forseti, í hæsta máta óeðlilegir viðskiptahættir að fólki sé refsað, það þurfi að greiða tugi og hundruð þúsunda fyrir að ætla að greiða upp skuldir sínar. Því er eftirfarandi fyrirspurn beint til hæstv. viðskiptaráðherra:

Telur ráðherra að innheimta uppgreiðslugjalds hjá fjármálafyrirtækjum samrýmist lögum um neytendalán?

Hver er skoðun ráðherra á uppgreiðslugjaldi?

Er ráðherra reiðubúin að beita sér fyrir lagabreytingum svo tekin verði af öll tvímæli um að óheimilt sé að innheimta uppgreiðslugjald ef núgildandi lög eru óljós í því efni?

Þekkist það í nágrannalöndum okkar að fjármálafyrirtæki hafi heimild til innheimtu uppgreiðslugjalds þegar fólk vill greiða upp skuldir sínar?