131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Fjármálaeftirlitið.

157. mál
[14:52]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Í október árið 2003 setti Fjármálaeftirlitið fram umræðuskjal um hvort ástæða væri til að rýmka heimildir eftirlitsins til að greina frá framkvæmd eftirlits og niðurstöðu í einstaka málum. Rökin sem Fjármálaeftirlitið setti fram voru að aukin upplýsingagjöf um framkvæmd og niðurstöður eftirlits gætu stuðlað að auknu markaðsaðhaldi gagnvart þeim sem starfa á fjármálamarkaði. Slíkar upplýsingar mundu eiga þátt í að leiða í ljós styrkleika og veikleika þeirra sem eftirlitið beinist að. Fjármálaeftirlitið benti líka á varnaðaráhrifin af auknu gegnsæi.

Fram hefur einnig komið hjá forstjóra Fjármálaeftirlitsins að hann lýsir áhyggjum sínum af því að um takmarkaðar heimildir stofnunarinnar sé að ræða til að greina frá athugasemdum sínum við markaðsaðila og úrskurði í einstaka málum.

Athyglisvert er einnig að nýlega kom fram hjá KB-banka að þrýsta þyrfti á löggjafann um að auka heimildir Fjármálaeftirlitsins til að tjá sig. KB-banki spyr hvernig það megi vera að ef eftirlitið þurfi að hafa afskipti af viðskiptum eða innri málefnum fyrirtækja að markaðurinn sé ekki upplýstur um það.

Ég er sannfærð um að það muni veita mikilvægt markaðsaðhald og stuðla að bættu viðskiptaumhverfi á fjármálamarkaði ef Fjármálaeftirlitið fengi slíkar heimildir. Fjármálaeftirlitið hefur oft að ósekju sætt gagnrýni um að aðgerðir þess séu veikar, Fjármálaeftirlitið sem stofnun sé veik og þar sé lítið aðhafst. Ég tel að skýringin sé sá leyndarhjúpur sem hvílir yfir aðgerðum sem FME grípur til gagnvart eftirlitsskyldum aðilum sem sjaldnast koma fram opinberlega.

Rýmka þarf einnig heimildir Fjármálaeftirlitsins til að beita stjórnvaldssektum. Í Evrópusamstarfi verðbréfaeftirlita og í nýjum tilskipunum Evrópusambandsins er stefnan sú að unnt verði að ljúka innherjasvikamálunum sjálfum með stjórnvaldssektum í stað þess að setja þau í hefðbundna refsimeðferð. Þessi umræða beinist að verðbréfamarkaðnum, einkum markaðssvikum, þ.e. innherjasvikum og markaðsmisnotkun þar sem þörfin er mest. Fordæmi um viðurlög á stjórnsýslustigi er m.a. að finna í starfsemi og heimildum Samkeppnisstofnunar og skattrannsóknarstjóra.

Í nýlegri tilskipun Evrópusambandsins um markaðssvik er kveðið á um að eftirlitsaðilar skuli búa yfir heimildum til þess að beita stjórnsýsluviðurlögum þegar reglur sem byggja á tilskipuninni eru brotnar. Jafnframt er kveðið sérstaklega á um að tryggja þurfi eftirlitsaðilum heimild til að greina opinberlega frá beitingu stjórnsýsluviðurlaga.

Fyrirspurn mín til hæstv. viðskiptaráðherra um þetta efni hljóðar svo:

„Mun ráðherra beita sér fyrir lagaheimild sem eykur gegnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins, til að mynda með því að rýmka heimildir til þess að greina frá framkvæmd eftirlits og niðurstöðum í einstökum málum?

Telur ráðherra rétt að Fjármálaeftirlitið fái heimildir til að beita sektum, t.d. fyrir innherjasvik, og hvaða áhrif hefði það haft á mál sem komið hafa til kasta þess og tengjast innherjasvikum ef slíkar heimildir hefðu verið fyrir hendi sl. þrjú ár?“