131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Fjármálaeftirlitið.

157. mál
[15:05]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að vandað sé til löggjafarinnar og þeirra frumvarpa sem lögð eru fram af okkar hálfu og þessi mál eru til athugunar og hv. þm. skildi mig alveg rétt áðan þar sem ég sagði að við værum að athuga hvort ekki væri rétt að Fjármálaeftirlitið fengi heimildir til stjórnvaldssekta. En þessi mál snúa líka að dómsmálaráðuneytinu og það þarf að hafa samráð í þeim.

En mér finnst þegar hv. þingmenn koma hér og tala mikið um að efla þurfi Fjármálaeftirlitið þá verði að hafa í huga að það er ekkert smáræði sem það hefur verið eflt. Það er öflugt og þegar talað er um að þessi mál séu ekki í nægilega góðu horfi þá finnst mér það í raun ekki alveg sanngjarnt því ég held því fram að þarna séu mál í góðu lagi. Ég ítreka það sem kom fram áðan að vegna þess hvernig Fjármálaeftirlitið starfar, samkvæmt lögum, þá vitum við ekki og almenningur veit ekki hvað þar er verið að vinna. Ég veit það ekki heldur þó að ég fari með þessi málefni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar því Fjármálaeftirlitið er algerlega sjálfstætt og ráðuneytið sem slíkt hefur ekki nokkur afskipti af vinnubrögðum þeirra. Ég trúi því og hef margoft sagt það á hv. Alþingi að ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en þar sé staðið vel að málum en það sem hv. þm. spyr um er hins vegar umhugsunarefni og það er eitt af því sem við erum að fara yfir í mikilli alvöru.