131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Minjagildi kirkjumuna og kirkjugarða.

109. mál
[15:13]

Drífa Hjartardóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Ég held að það sé mjög merkilegt, og miklu máli skiptir að vel sé haldið utan um minjagripi kirkna og kirkjugarða. Kirkjur landsins geyma margar mestu gersemar sem við eigum í fornminjum okkar. Það eru til mörg gömul líkneski frá kaþólskum tíma sem hafa ekki verið tekin úr kirkjunum — þó að við séum ekki kaþólsk — og gamlir kaleikar og margir fagrir gripir og merkilegir og sannarlega er vert að vel sé hugað að bæði með skráningu og varðveislu þeirra og það var mjög ánægjulegt að heyra svar hæstv. menntamálaráðherra hér áðan.