131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Minjagildi kirkjumuna og kirkjugarða.

109. mál
[15:14]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að koma á framfæri þökkum til fyrirspyrjanda, hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Hér er verið að hreyfa við að mörgu leyti mjög merkilegu máli.

Það er alveg ljóst að við Íslendingar eigum mikið af merkilegum kirkjugripum og ég er einn af þeim sem hafa mjög gaman af því að koma í kirkjur víða á landinu, fara inn í þær, dást að listaverkum sem þar eru og eiga þar kyrrláta stund með sjálfum mér.

Ég minnist þess að í fyrra var áhugaverð umræða einmitt um kirkjugripi og varðveislu þeirra. Hv. varaþingmaður Samfylkingarinnar Önundur Björnsson kom þeim umræðum af stað og þar var m.a. talað um þetta; öryggismál í kirkjum og kirkjugripi og hvort við ættum ekki að gera meira af því að nota þá kirkjugripi sem í dag eru í geymslum Þjóðminjasafnsins og þjóðin fær ekki að nota, hafa þá meira til sýnis á þeim stöðum sem þeir eiga heima, þ.e. í kirkjum landsins. Þess vegna fagna ég því ef menn eru farnir að líta nánar á öryggismál varðandi kirkjugripi í kirkjum landsins.