131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:18]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Brottfall úr íslenskum framhaldsskólum er töluvert vandamál í skólakerfi okkar og í samanburði við brottfall erlendis sést að það er töluvert hærra hér og skólasókn ungs fólks talsvert minni. Einn samanburður á ástundun 18 ára fólks á Norðurlöndunum leiddi t.d. í ljós að Íslendingar á þeim aldri eru á bilinu 65–70% við nám í framhaldsskólum á meðan hlutfallið er yfir 90% t.d. í Svíþjóð þar sem skólaástundun er mjög mikil. Á þessum aldri eiga að sjálfsögðu sem allra flestir að vera við nám til að auka möguleika sína í atvinnulífi og þroska kosti sína. Brottfall tekur hins vegar við í allt of mörgum tilfellum og fáir sem snúa til baka til náms síðar á lífsleiðinni hafi þeir fallið brott. Þó að margir skólar hafi náð prýðilegum árangri í að stemma stigu við brottfalli og það hafi dregið úr því víða er það samt allt of mikið. Í svari menntamálaráðuneytisins í fyrra til þess sem hér stendur, um fjölda nemenda sem fallið höfðu brott, kemur t.d. í ljós að brottfall úr verknámi samkvæmt þeirri skilgreiningu sem þar er notuð er töluvert hátt þar sem fram kemur að 2.757 nemendur í það heila höfðu hætt námi en 18.250 hófu það haustið áður og þar er sérstaklega hátt brottfall úr verknáminu. Ber því að beina sjónum sérstaklega að því hvaða leiðir eru færar til að draga úr því og m.a. í endurskoðun á starfsnáminu.

Þá er athyglisvert að skoða brottfallið í ljósi aldurs hópsins og hefur Gísli Baldvinsson starfs- og ráðgjafi bent á ýmsar athyglisverðar tölur í skrifum sínum, bæði á vefsíðu sinni og í grein í Morgunblaðinu fyrr á árinu þar sem hann rekur brottfallið bæði eftir aldri og námsbrautum. Gísli bendir einnig á leiðir og hvaða leiðir hafi verið farnar annars staðar. Hann segir t.d. í grein sinni að engin ákvæði um náms- og starfsráðgjöf séu í grunnskólalögum með beinum hætti og engin ákvæði um að starfs- og námsráðgjafi skuli starfa í grunnskólum landsins í fullri stöðu. Telur hann sem sérfræðingur í málaflokknum mjög mikilvægt að beina sjónum að grunnskólanum sérstaklega þegar unnið er gegn brottfalli. Það skiptir mestu máli að þar sé forvörnin. Í Danmörku er t.d. einn náms- og starfsráðsgjafi á hverja 300 nemendur. Það eru því margar aðrar leiðir. Einnig má benda á að efla starfsnám með styttri námsbrautir, starfs- og námsráðgjöf hvers konar og öflugt verknám þar sem vel er við það gert. Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra í framhaldi af svarinu sem ég fékk frá ráðuneytinu í fyrra um brottfallið, hvort einhverjar leiðir séu í vændum til að stemma enn frekar stigu við brottfalli ungs fólks úr framhaldsskólum.