131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:27]

Jón Gunnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það kom fram í svari hæstv. menntamálaráðherra að í reiknilíkaninu sem notað er til að reikna út framlög til framhaldsskóla væri innbyggður hvati til að sporna við brottfalli. Það er rétt að svo hefur verið hingað til en nú virðist vera ákveðin stefnubreyting þar, a.m.k. hjá fjármálaráðuneytinu, vegna þess að í fjáraukalögum segir, með leyfi forseta:

„Nemendaspá bendir til þess að fjöldi ársnemenda geti orðið allt að 1.100 umfram forsendur fjárlaga og er miðað við að lækka meðalframlag á nemanda frá því sem gert hafði verið ráð fyrir.“

Með öðrum orðum það er stefna fjármálaráðuneytisins að takist skólastjórnendum vel upp að sporna við brottfalli og fleiri nemendur þreyti próf þá verði meðalframlag á nemanda lækkað. Það verði sem sagt farið í það að krukka í reiknilíkanið og sá hvati sem var fyrir hendi fyrir skólastjórnendur að tryggja það að nemendur gengju til prófs hyrfi með þessu.

Það er rétt að það virðist ekki vera vilji til þess hjá menntamálaráðuneytinu að fara þessa leið og vona ég satt best að segja að hæstv. menntamálaráðherra vinni þetta stríð þegar upp er staðið.