131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:30]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þátttakan í umræðunni sýnir að þingmönnum er annt um þá námsmenn sem kunna að lenda í brottfalli í framhaldsskólunum. Því miður hefur brottfallið verið alvarlegt vandamál og til marks um afrekasögu Sjálfstæðisflokksins, að eftir að hafa farið með menntamálaráðuneytið nær óslitið í liðlega 20 ár höfum við nánast heimsmet í brottfalli. Guð láti gott á vita ef við erum á réttum vegi í því eins og hæstv. ráðherra segir.

Brottfallið verður hins vegar víðar en innan framhaldsskólans, það verður líka í grunnskólanum. Af því tilefni að nú er verkfall í grunnskólanum langar mig að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að það verkfall leiði til aukins brottfalls í efstu bekkjum grunnskólans og hvernig hún hyggist bregðast við því.