131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:31]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Herra forseti. Einhvern veginn finnst mér að brottfall í framhaldsskólanum komi meira við unga drengi en ungar stúlkur, sé ofboðslega kynbundið. Þær ástæður held ég að þurfi að skoða. Eflaust eru ástæður brottfalls eins margar og þeir einstaklingar sem hverfa frá námi. Það er gott að heyra hjá hæstv. menntamálaráðherra að brottfall sé að minnka. Ég heyri að unnið er í þessum málum og treysti því að það verði gert, enda nýtist okkar ágæta skólakerfi miklu betur, þær fjárfestingar sem þar eru og þeir starfsmenn sem þar eru, ef sett er undir þann leka sem brottfallið er auk þess sem það geta verið persónulegir erfiðleikar í einstökum dæmum.