131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:33]

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Verið er að ræða um brottfall úr framhaldsskóla. Það er of mikið og hefur verið til margra ára, en fram kom á fundi í fjárlaganefnd með menntamálaráðuneytinu að brottfallið var mest þegar verkfall framhaldsskólakennara var það árið. Þess vegna er það mjög alvarlegt mál þegar kennarar fara í verkfall. Það kom líka fram að reiknilíkanið hefur orðið til þess að nú ganga mun fleiri til prófs á hverju ári en áður fyrr þannig að reiknilíkanið hefur þó skilað þeim árangri.

Eins og fram kom hjá hæstv. menntamálaráðherra eru skólarnir að bregðast við þessu sem betur fer og verið að gera margt gott á mjög metnaðarfullan hátt.