131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:36]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég, eins og hv. fyrirspyrjandi, fagna umræðunni um brottfallið en meginmálið í þessu öllu er að við erum að minnka brottfallið í framhaldsskólunum. Það er stóri árangurinn sem hefur náðst á undanförnum missirum en auðvitað höldum við áfram stefnu okkar til þess að minnka það. Það er aldrei ásættanlegt að brottfall sé til staðar í skólakerfinu og að sjálfsögðu munu allar aðgerðir okkar m.a. miðast við að reyna að minnka brottfall en ég vil síður tala um sértækar aðgerðir. Ég er að tala um almennar aðgerðir. Hvaða almennu aðgerðir er ég að tala um? Ég er að tala um gríðarlega breytingu á skólakerfinu með því að stytta námstímann til stúdentsprófs. Það eru mjög miklar líkur á því að með því að stytta námstímann til stúdentsprófs komi brottfall til með að minnka.

Í öðru lagi tengist stytting námstíma til stúdentsprófs endurskoðun á aðalnámskrám og þá sérstaklega námskránum varðandi starfsnám. Þar munum við skoða vel þær námsbrautir og námsval sem er til boða.

Ég vil benda á það sem mér finnst skipta mjög miklu máli varðandi alla umræðuna í tengslum við verknámið og starfsnámið, að við tölum ekki eins og oft vill verða niður til starfsnámsins, niður til verknámsins, heldur eigum við öll hér inni, ágæti og hv. þingheimur, sem og allir í samfélaginu að reyna að tala námið frekar upp. Með þetta í huga hef ég m.a. haft samband við Samtök iðnaðarins sem fara væntanlega með mér í að breyta viðhorfum samfélagsins, breyta viðhorfum fólks, ekki síst foreldra þegar þeir eru að leiðbeina börnunum sínum hvert þau eigi að fara því starfsnám er mjög merkileg og skemmtileg valbraut eða tækifæri fyrir ungt fólk. Lykilinn að þessu öllu saman held ég að sé að breyta viðhorfum.