131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[15:51]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Oft heyrist í þingsal að kjörnir fulltrúar eigi ekki að vera með afskipti bein eða óbein af rekstri ríkisstofnana eða fyrirtækja í eigu ríkisins. Hins vegar heyrast svo aftur þær raddir inn á milli að kjörnum fulltrúum er ætlað að vera með bein eða óbein afskipti og jafnvel ætlast til þess að þeir hafi slík afskipti.

Þessi umræða snýst dálítið í hringi. Um hvað snýst málið? Löglega kjörin stjórn Símans ehf. hefur tekið sjálfstæða ákvörðun. Hún hefur tekið ákvörðun um að fjárfesta í fjölmiðlafyrirtæki og þá hljóta eðlilega að vakna upp ýmsar spurningar, m.a. spurningin hvers vegna? Ég kann ekki svör við því frekar en aðrir í þessum sal og það má gagnrýna stjórn Landssímans fyrir að hafa ekki kynnt ástæður þess. Það hefur verið látið að því liggja að með þessu móti sé verið að auka verðmæti fyrirtækisins, verið sé að nýta þá fjárfestingu sem til staðar er og gera fyrirtækið þannig sölulegra. Það kann að vera rétt en ég held ég hljóti að vísa á bug þeim alvarlegu ásökunum sem hv. formaður Samfylkingarinnar ber á alla stjórnarmenn Símans. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir og eru í rauninni það alvarlegar að þær hljóta að koma hér frekar til umræðu.

Stóra spurningin er hins vegar um fjölmiðlun og þátttöku ráðandi aðila á fjarskiptamarkaði og þá rifjast óneitanlega upp umræða frá því í vor og sumar. Það hlýtur að vera álitamál Samkeppnisstofnunar, umsögn og úrskurður hennar hlýtur að hafa sitt að segja um þessa ákvörðun. Komi í ljós að Síminn sé of ráðandi á markaði til að vera með beina aðild að fjölmiðlamarkaði hlýtur sá þáttur fyrirtækisins að vera seldur sérstaklega undan fyrirtækinu að öðru leyti. Heilbrigð samkeppni í fjarskiptum og á fjölmiðlamarkaði er sú sýn sem við viljum sjá. Hvort sú er raunin með þessum kaupum hlýtur Samkeppnisstofnun að svara fljótlega.