131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[15:53]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér er til umræðu ríkisvæðingin á Skjá einum, kaup ríkisfyrirtækisins Landssímans á einkafyrirtækinu Skjá einum. Í fyrstu ætlaði Landssíminn eingöngu að kaupa enska boltann en lenti þá að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins í því að kaupa hlut í sjónvarpsstöð. En síðan var ákveðið að ríkið fjárfesti enn frekar í gegnum Landssímann. Ástæðan fyrir því var að sögn Morgunblaðsins að einhver orðrómur var uppi um að fjárfestar sem ríkisstjórnin hefur horn í síðu á höfðu hug á að fjárfesta í einkafyrirtækinu og nú á ríkið skyndilega 50,4% í Skjá einum. Það var sem sagt verið að koma í veg fyrir að óæskilegir fjárfestar fjárfestu í fyrirtækinu. Allar útskýringar forstjóra og stjórnarformanns Landssímans á þessum kaupum hafa vægast sagt verið illskiljanlegar og þokukennt þvaður sagt í því skyni að drepa málinu einfaldlega á dreif.

Málið er nefnilega einfalt. Það snýst um hreina og tæra spillingu, pólitíska spillingu. Það er augljóst öllum þeim sem eitthvað kynna sér málið nema þá helst innvígðum sjálfstæðismönnum sem trúa í einu og öllu því sem flokksforustan segir.

Hæstv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde hefur misnotað eigur almennings í einhverri undarlegri pólitískri herför gagnvart Norðurljósum. Að vísu segir hæstv. fjármálaráðherra sér til málsbóta að hann hafi ekki vitað hvað fram hafi farið í fyrirtækinu en það má öllum ljóst vera að hann er að segja ósatt. Það er ekkert vit í þessu málatilbúnaði.

Furðulegast er þó af öllu að þeir sem standa fyrir þessari ríkisvæðingu eru sífellt að klifa á einkavæðingu. Það er algert bull. Þessi ríkisvæðing, sama hvað hv. þm. Hjálmar Árnason segir, mun að öllum líkindum lækka verð fyrirtækisins, lækka verðið á Símanum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sýnt að hann hefur engan áhuga á (Forseti hringir.) samkeppni á fjarskiptamarkaði með því að svara ekki spurningum sem hefur ítrekað verið beint til hans.