131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[16:00]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra veitti okkur sýnikennslu í hinum myrkari hliðum hlutafjárvæðingar ríkisstofnana. Þegar ásakanir eru uppi um að þær séu misnotaðar þá segir fulltrúi okkar, eiganda stofnunarinnar, í þessu tilviki Símans, að sér komi málið ekki við, hann hafi ekki leyfi til að spyrjast fyrir um gang mála. Málshefjandi, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hefur farið rækilega í saumana á hinni pólitísku hlið þessa máls sem er vægast sagt skuggaleg. Það er skuggalegt þegar stofnanir ríkisins, eða fyrirtæki eru notuð sem pólitísk fjárfestingartæki með eða án vitundar hæstvirtra ráðherra. Það eru fleiri pólitíkusar á sveimi, eins og fram hefur komið, en hæstv. ráðherra.

Ég ætla að víkja að einni samfélagslegri hlið þessa máls. Forsvarsmenn Símans segja að það sé eðlilegt, heppilegt og æskilegt að fjárfesta í sjónvarpsfyrirtæki af viðskiptaástæðum, þ.e. til þess að flytja sjónvarpsefni. Það vakti athygli mína þegar forsvarsmenn Símans sátu fyrir svörum í Kastljósi ríkissjónvarpsins fyrir nokkrum dögum og voru spurðir hvers vegna í ósköpunum þeir hefðu fjárfest í þessu fyrirtæki, hvers vegna ekki Norðurljósum, en ég spyr hins vegar þeirrar spurningar sem enginn spurði þá, en þjóðin spyr: Hvers vegna ekki samvinnu við Ríkisútvarpið? Er það orðið bannorð að nota sameignir þjóðarinnar í þágu þessarar sömu þjóðar? Á alltaf og undir öllum kringumstæðum undir forustu þessarar ríkisstjórnar að stefna til sundrungar í stað þess að sameina kraftana? Og ég spyr um þá nefnd sem er starfandi — þó að hæstv. samgönguráðherra sé ekki fyrir svörum hér — í samgönguráðuneytinu, nefnd sem starfar einmitt að því að sameina kraftana, búa til dreifikerfi sem gagnast öllum, öllum sjónvarpsstöðvum í landinu. Þessi viðleitni gengur þvert á það.