131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[16:02]

Dagný Jónsdóttir (F):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir umræðuna. Við höfum undanfarið heyrt ýmislegt um kaup Símans á Skjá einum. Við verðum að ætla að stjórn Símans fari út í þessi kaup á viðskiptalegum forsendum. Rök þeirra snúa að því að nýta betur þá miklu fjárfestingu sem liggur í fjarskiptakerfunum. Þetta á að skila góðum arði til eigenda félagsins.

Sterkustu rökin eru þau að framkvæmdin sjálf, að dreifa stafrænu sjónvarpsefni um ADSL-kerfið, mun flýta fyrir almennri uppbyggingu dreifikerfisins víða um landið. Rök sumra aðila um að Síminn sé nú að troða sér inn á fjölmiðlamarkað eru einkennileg. Ég veit ekki betur en að Síminn hafi verið á þeim markaði árum saman. Hann hefur verið þar með breiðbandið og ástæða þess að farið var af stað með breiðbandið á sínum tíma var nákvæmlega sú að nýta kerfið betur líkt og nú er verið að gera.

Eins og við vitum stóð til að selja Símann árið 2000. Það tókst ekki. Er eðlilegt að hafa fyrirtæki í spennitreyju allan þann tíma sem söluferlið tekur? Það tel ég ekki og sérstaklega ekki ef ferlið tekur fjögur til fimm ár. Ég viðurkenni þó alveg hér að ég hefði kannski frekar viljað sjá Símann tryggja aðgang að ADSL-þjónustu á landsbyggðinni þar sem hana er ekki að hafa. Hins vegar verðum við að binda vonir við að sú vinna taki kipp eftir þessi kaup. Við verðum að skilja raddir landsmanna sem geta ekki t.d. stundað fjarnám við almennileg skilyrði eða hafið fyrirtækjarekstur vegna þess að netaðgangur er ekki til staðar. Og það er einkennilegt að það hafi kannski þurft enska fótboltann til þess. En þessar raddir eiga fullan rétt á sér og ég tel að stjórnvöld verði að taka pólitíska ákvörðun um áframhaldandi uppbyggingu dreifikerfis og gagnaflutninga líkt og t.d. þau tóku ákvörðun á sínum tíma um að gera landið allt að einu gjaldsvæði.