131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[16:07]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Kaup Landssímans á hlut í Skjá einum eru fullkomlega eðlileg. Hér er stjórn Landssímans að fjárfesta til framtíðar, sem mun væntanlega auka verðmæti fyrirtækisins og gera það söluvænna þegar horft er til skemmri og lengri tíma.

Upphafsmaður þessarar umræðu, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, er einn helsti samsæriskenningamaður þingsins. Ásakanir hans eru ekki svara verðar og ætla ég ekki að svara þeim. Á sama tíma, virðulegi forseti, er Samfylkingin í fylkingarbrjósti í R-lista samstarfi í Reykjavík. Þar situr fulltrúi þeirra í stjórn Orkuveitunnar sem fjárfestir með kaupum á fyrirtækjum sem eru í alls konar rekstri. Þá virðist í lagi að opinber fyrirtæki séu að fjárfesta. Ég tala nú ekki um alla þá fjármuni sem hafa gufað upp í fjárfestingum Orkuveitunnar. Talið er, virðulegi forseti, að milli 3 og 4 milljarðar kr. hafi tapast á fjárfestingum í Línu.Neti og Tetra. Ég veit ekki hvað hefur tapast í risarækjunum. Í staðinn eru orkureikningar heimilanna, í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum, hækkaðir eftir þörfum, heita vatnið hvað mest og þá helst yfir hásumarið.

Ég held að Samfylkingin þurfi að líta í eigin barm og Vinstri grænir einnig, þar sem þeir eru talsmenn miðstýringar og ríkisvæðingar á flestum hlutum, áður en þeir gagnrýna aðra sem eru þó að fjárfesta af skynsemi.